Ísland í brennidepli í hundraða milljóna herferð

VIÐSKIPTI  | 10. september | 14:22 
Kvikmyndatökum sænska ferðavörufyrirtækisins Thule á Íslandi lauk fyrr í vikunni en fyrirtækið var hér við tökur frá 27. júlí. Undirbúningur fyrir verkefnið stóð yfir í heilt ár. Kostnaðurinn við herferðina hleypur á fleiri hundruð milljónum króna.

Kvikmyndatökum sænska ferðavörufyrirtækisins Thule á Íslandi lauk fyrr í vikunni en fyrirtækið, sem selur vörur í 136 löndum á alþjóðavísu, var hér við tökur frá 27. júlí.

Undirbúningur fyrir verkefnið stóð yfir í heilt ár í samvinnu við Stillingu sem er umboðs- og söluaðili Thule á Íslandi. Kostnaðurinn við herferðina hleypur á fleiri hundruð milljónum króna.

Komu með 10 tonn af búnaði

Allt að 80 manns alls staðar að úr heiminum komu að verkefninu og voru 10 tonn af búnaði send til landsins ásamt sérbúnum kvikmyndabílum og bíltegundum sem ekki hafa áður sést á Íslandi sem notaðar voru við upptökurnar.

Bjarni Ingimar Júlíusson, sölustjóri hjá Stillingu, segir tökurnar hafa gengið framar vonum en hann var forsvarsmönnum Thule innan handar við skipulagningu og framkvæmd verkefnisins.

„Þetta gekk bara eins og í sögu. Það var enginn sem slasaðist og engar óvæntar uppákomur,“ segir hann.

„Veðrið var reyndar aðeins að stríða okkur. Þetta fólk er vant því að taka upp á stöðum þar sem þau vita nákvæmlega hvernig veðrið verður þrjár vikur fram í tímann. Hin sveiflukennda íslenska veðrátta kom því nokkrum í hópnum á óvart.“

Hópurinn hafi þó gist í góðu yfirlæti á Midgard Basecamp á Hvolsvelli svo hann þurfti ekki að leita langt yfir skammt að stórbrotinni náttúru, að sögn Bjarna.

„Það tók ekki nema 1-1,5 klukkutíma að keyra á alla tökustaðina frá Midgard þannig að veðrið skipti raunverulega engu máli. Þau eltu góða veðrið bara uppi og tókst einhvern veginn alltaf að finna sólina.“

Stjórstjörnur úr jaðaríþróttum

Kvikmyndin er liður í heimskynningarstefnu fyrirtækisins og var hún tekin upp í nánu samstarfi við alþjóðlega talsmenn og áhrifavalda vörumerkisins en við tökurnar var lögð áhersla á að sýna þá í sínu rétta umhverfi, að því er segir í tilkynningu frá Thule.

Hópurinn samanstendur að mestu af stórstjörnum úr jaðaríþróttaheiminum en má þar helst nefna brimbrettakappann Garret McNamara, sem á metið í að sörfa stærstu öldu í heimi, frönsku snjóbrettagoðsögnina Xavier De Le Rue, sænska ólympíugullverðlaunahafann í alpagreinum Anja Pärson og heimsþekkta fjallaleiðsögumanninn Apa Sherpa, sem hefur farið 21 sinni upp á topp Everest og á 13 met í Heimsmetabók Guiness.

Margir í hópnum hafi verið að koma til Íslands í fyrsta sinn en aðrir voru hér í sjöunda sinn, að sögn Bjarna. Allir hafi þó verið ánægðir með bæði ferðina og verkefnið.

„Þau voru bara alveg í skýjunum og áttu ekki til orð yfir náttúrufegurðinni hérna. Öll eru búin að ákveða að koma aftur hingað á mismunandi tímum ársins til að upplifa landið í mismunandi búningi.“

Kostnaðurinn dropi í hafið

Kostnaðurinn á herferðinni hleypur á fleiri hundruð milljónum, segir Bjarni inntur eftir því. Hún muni þó eflaust skila mun meiru í kassann til Thule þegar hún fer í loftið að ári liðnu.

„Þetta er risastórt fyrirtæki sem velti í 118 milljörðum á síðasta ári. Það er rekið með góðum hagnaði og því gengur vel. Þetta er bara dropi í hafið af því sem koma skal næstu 18 mánuðina.“

Eitthvað af efninu sem tekið var upp fyrir herferðina sé þó strax komið í birtingu, að sögn Bjarna.

„Ég er strax farinn að sjá klippur á Instagramsíðu Thule frá fyrstu ferðinni í júlí sem var í Iceland Bike Farm á Suðurlandi.“

Aðspurður segist Bjarni glaður að hafa getað orðið Thule að liði í verkefninu enda sé það frábær kynning fyrir Ísland.

Lengri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.

Þættir