Forysta Samfylkingarinnar ósammála um veiðigjaldið

INNLENT  | 17. september | 15:30 
Logi Einarsson telur að veiðigjöld á útgerðina gætu numið 9-10 milljörðum í ár í stað 5 milljarða eins og raunin er. Oddný Harðardóttir hefur lýst því yfir að upphæðin ætti að vera tvöfalt hærri.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar telur að veiðigjöld á útgerðina ættu að nema 9-10 milljörðum króna í ár, í stað þeirra 5 milljarða sem raunin er. Þetta kemur fram í viðtali við hann á vettvangi Dagmála. Með þessu lýsir Logi skoðun sem er í talsverðu ósamræmi við þær hugmyndir sem Oddný Harðardóttir, fyrrum fjármálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar lýsti yfir í þætti Dagmála 26. ágúst síðastliðinn. Þar sagði hún að veiðigjaldið ætti að hækka um 15 milljarða frá því sem nú er og renna beint til Landspítalans. Þar með væru gjöldin 20 milljarðar í ár en ekki 9-10 eins og Logi leggur til.

Hann segir í viðtalinu að veiðigjöldin ættu að vera stigvaxandi og þannig ættu 20 stærstu útgerðirnar að greiða hærri gjöld en nú er en að litlar og meðalstórar útgerðir þyrftu ekki „að hafa áhyggjur.“

Breytingar á bókhaldsreglum

Spannst í þættinum fjörleg umræða um veiðigjöldin og álagningu þeirra. Fylgir samtalið hér á eftir en einnig er hægt að hlusta á hana í spilaranum hér að ofan.

„Þið tókuð eftir því að þegar voru samþykkt ný lög um veiðileyfagjöld að mig minnir 2018 þar sem 33% grunnur var. Þá var ýmislegt annað gert líka. Mig minnir að það hafi verið þannig að fyrritæki gátu allt í einu fyrnt með 10-20% á ári sem þýðir bara fyrning á skipi á fimm árum og jafnvel flæðilínu líka,  áætlað vaxtagjöld, þannig að það var ýmislegt sem gert var í leiðinni sem gerði það að verkum að sú upphæð sem lá til grundvallar álagningu veiðigjalda, hún lækkaði.“

Voru þá veiðigjöldin bara lækkuð með bókhaldsfiffi?

„Nei, ekki bókhaldsfiff. Það er ekkert bókhaldsfiff ef þú hefur leyfi til að gera það.“

Markmiðin með því voru að sjá til þess að sjávarútvegurinn gæti haldið áfram að fjárfesta.

„Ég tel að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að fjárfesta og ég held að staða allra stærstu fyrirtækjanna, sem eru auðvitað mjög mörg mjög glæsileg og hafa búið til mjög margt í kringum sig líka og kannski leitt þetta sem við töluðum um sem er fjórða iðnbyltingin. En þau geta lagt meira af mörkum. Þjóðin á þessa auðlind og á rétt á meiru út úr auðlindinni. Þannig að við höfum talað fyrir þessari hófsömu leið og við höfum líka sagt í stefnunni að við viljum setja upp leið til að finna fyrirkomulag sem allir geta sætt sig við. Við höfum talað um að uppboð á takmörkuðu magni eða uppboð í tilraunaskyni til að kanna hvaða áhrif það hefði, hvort að það gæti verið leið til að finna rétt verð á þetta. Ef aðrir koma með betri lausnir sem allir eru sáttir við en gefa þjóðinni réttlátari arð af auðlindunum, þá viljum við skoða það.“

 

Tekur dræmt í hugmynd Sigmundar Davíðs

Hvað finnst þér um þessa hugmynd nágranna þíns, Sigmundar Davíðs að afhenda þjóðinni einfaldlega sinn skerf? Ef þjóðin á þetta á hún þá ekki að fá þetta?

„Jú það má svosem alveg segja það. Þjóðin er hins vegar hluti af samfélagi. Samfélag er að einhverju leyti samkomulag um að við hjálpum hvert öðru og að þeim sem vegnar betur geti lyft betur undir með þeim sem vegnar verr. Og að við ættum að deila þessu kannski öðruvísi en flöt upphæð á haus.“

Gætuð þið ekki bara sent út flata upphæð og skattað það síðan?

„Jú auðvitað gætum við það. Mér finnst þetta slagorð ASÍ, Það er nóg til, pínu fallegt. Ég skil það ekki þannig að það sé til ótakmarkað af peningum og að þeir vaxi á trjánum og að það sé hægt að láta alla hafa allt. Ég lít meira á það þannig að við erum fjölskylda, við erum samfélag og það er alveg sama hvort það ári vel eða ári illa, hvort það er til lítið af peningum eða mikið af peningum þá verður bara að vera nóg til af peningum og við deilum því jafnt.“

mbl.is

Skattaeftirlit og stóreignaskattur skili sínu

Oddný Harðardóttir, fyrrum fjármálaráðherra lýsti því yfir hérna í settinu að hún teldi að í stað þeirra fimm milljarða sem verið væri að leggja á samkvæmt hennar upplýsingum þá ætti að leggja 20 milljarða. Er það u.þ.b. sú tilfinning sem þú telur að kerfið gæti skaffað?

„Nei ég hef sagt það að okkar tillögur sem við höfum verið að leggja hérna fram og fela í sér varanleg rekstrarútgjöld kosti 20 til 25 milljarða. Og við höfum ætlað að fjármagna það með þessum 1,5% eignaskatti á hreinar eignir yfir 200 milljónir. Það ætti að gefa okkur svona 14-15 milljarða. ASÍ hefur talað um 20, við höfum talað um 14-15. Restin sem er þá álag á veiðigjöldin og skattaeftirlit væri þá þessir 5-10 til viðbótar. ASÍ hefur talað um að skattaeftirlitið ætti að gefa 4-5. Það ætti þá að gefa vísbendingu um að ég er að tala um 4-5.“

Þáttinn má í heild sinni sjá hér:

mbl.is

 

 

Þættir