Spennandi ráðherrakapall hafinn

INNLENT  | 13. október | 14:02 
Framundan er spennandi ráðherrakapall, þar sem stjórnarflokkarnir skiptast á ráðuneytum og skipti jafnvel upp gömlum og mosagrónum ráðuneytum. Þetta er álit tveggja þingmanna í Dagmálum í dag.

Þingkonurnar Helga Vala Helgadóttir í Samfylkingu og Hildur Sverrisdóttir í Sjálfstæðisflokki telja að framundan sé spennandi ráðherrakapall, þar sem stjórnarflokkarnir skiptist á ráðuneytum og skipti jafnvel upp ráðuneytum.

Helga Vala leyfði sér að spá í spilin án ábyrgðar og er ljóslega þeirrar skoðunar að áframhaldandi stjórnarsamstarf sé í höfn. Hins vegar verði töluverðar breytingar við ríkisstjórnarborðið.

Hún telur að skipulagsmál og húsnæðismálin muni renna inn í hið nýja innviðaráðuneyti, en jafnframt verði tilflutningur á málaflokkum milli ráðuneyta. Hún hefur uppi getgátur um að Mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði skipt upp, þar sem Svandís Svavarsdóttir taki við menntamálaráðuneytinu, en Lilja Alfreðsdóttir verði áfram með menningarmálin á sinni könnu. Jafnframt telur hún að Sjálfstæðisflokkurinn taki við heilbrigðisráðuneytinu og að þar sé Guðlaugur Þór Þórðarson líklegasti kandídatinn.

Þær Hildur og Helga Vala eru gestir í Dagmálum í dag, þar sem stjórnarmyndun og æðsta stjórn ríkisins voru efst á baugi. Þátturinn er opinn öllum áskrifendum, en horfa má á hann allan með því að smella hér.

Þættir