„Með heila skáldsögu á herðunum“

FÓLKIÐ  | 29. nóvember | 10:35 
„Stundum fæ ég á tilfinninguna að ég sé með heila skáldsögu á herðunum sem er alveg tíu þúsund blaðsíður,“ segir Hallgrímur Helgason um skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem er sjálfstætt framhald af verðlaunabókinni Sextíu kíló af sólskini.

„Stundum fæ ég á tilfinninguna að ég sé með heila skáldsögu á herðunum sem er alveg tíu þúsund blaðsíður,“ segir Hallgrímur Helgason um skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem er sjálfstætt framhald af skáldsögunni Sextíu kíló af sólskini sem út kom árið 2018 og Hallgrímur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir. 

„Því hver aukakarakter sem kemur við sögu getur átt sína skáldsögu auk þess sem Íslandssagan er undir,“ segir Hallgrímur og tekur fram að það sé síðan hans að velja og hafna hvað ratar inn í bækurnar.

„Þannig verður endanlega bókin bara stutt útgáfa af þessari stóru sögu þar sem ég vel úr bestu bitana,“ segir Hallgrímur og bendir á að vinna hans felist í því að vefa saman heimildirnar, persónusögurnar, tungutakið, plottið og sögubygginguna. „Hver setning verður helst að endurspegla öll þessi element. Það er því margt að hugsa um þegar maður skrifar svona bók og helst þarf þetta allt að vera í ágætu jafnvægi.“

Spurður um heimildanotkun sína segist Hallgrímur reyna að hafa raunverulega hluti eins rétta og hægt er þótt vissulega taki hann sér auðvitað skáldaleyfi í þágu sögunnar. „Ég vil hafa þetta trúverðugt þannig að lesandinn trúi því að þetta hafi kannski verið svona. Auðvitað er þetta skáldsaga og því fylgir ákveðið frelsi. Ég reyni að hafa að leiðarljósi að þegar ég skrifa um staðreyndir þá skrifa ég um þær eins og þær séu skáldskapur, þannig að það sé skemmtilegt að lesa um það. Og þegar ég skrifa skáldskap skrifa ég hann eins og hann sé staðreynd þannig að lesandinn trúi á það. Þetta tvennt reyni ég að hafa í huga þegar ég skrifa.“

Í Dagmálsviðtalinu segist Hallgrímur ekki búinn að skrifa sitt síðasta um Gest Eilífsson og reiknar með að minnsti kosti einni bók til viðbótar í seríunni sem hófst með bókinni Sextíu kíló af sólskini. Hallgrímur ræðir einnig þær aðrar bækur sem hann sendir frá sér fyrir jólin, glímuna við textaflæðið og hvað taki við að afstöðnu jólabókaflóðinu. 

Hægt er að horfa á viðtalið við Hallgrím í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins.

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/224910/

Þættir