Heimtaði að vera með í næsta flóði

FÓLKIÐ  | 29. nóvember | 10:39 
Samhliða því að skrifa Sextíu kíló af kjaftshöggum orti Hallgrímur Helgason Koma jól? „Þegar maður er að vinna í skáldsögu þá er það yfirleitt svo mikið átak að maður leyfir sér ekkert annað. En þessi bók kom eins og bátur upp að hlið þess stóra skips og heimtaði að fá að vera með í næsta flóði.“

„Í bókinni Koma jól? er ég að kveðast á við Jóhannes úr Kötlum sem er gömul hefð,“ segir Hallgrímur Helgason og rifjar upp tilurð bókarinnar. „Hún ruddist fram þegar ég var veðurtepptur á Siglufirði,“ segir Hallgrímur og tekur fram að hann líti á jólaljóðabókina sína sem eðlilegt framhald eða uppfærslu á bók Jóhannesar.

„Ég byrjaði að yrkja hana í heita pottinum á Hótel Sigló í fyrra og svo lét þessi bók mig bara ekki í friði, sem gerist nú sjaldan. Þegar maður er að vinna í skáldsögu þá er það yfirleitt svo mikið átak að maður leyfir sér ekkert annað. En þessi bók kom eins og bátur upp að hlið þess stóra skips og heimtaði að fá að vera með í næsta flóði. Svo var ég á Siglufirði allan janúar og alltaf var þessi bók að kalla á mig og ég þurfti að sinna henni eftir að vinnudagurinn var búinn í hinni. Ég fór alltaf í sund klukkan sex á Siglufirði og kom eftir sundið og heita pottinn alltaf heim með tvær til þrjár nýjar vísur,“ segir Hallgrímur og rifjar upp að hann hafi átt í fórum sínum Grýlukvæði sem hann orti fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra fyrir rúmum áratug sem fékk að vera með í bókinni líka.

Að sögn Hallgríms þótti honum krefjandi að finna rétt nöfn á jólasysturnar. „Ég er þarna með Áttavillt sem er systir Gáttaþefs og Augasteinastara sem er systir Gluggagægis, nema hvað hún starir bara inn um gluggann og gefur ekkert í skóinn. Svo eru þarna Svangatöng, Tertuglöð og Fiturönd, Bokka, Töskubuska og Fantasía, sem síar fantana frá. Hún er femínistinn og ofurhetjan í bókinni,“ segir Hallgrímur og viðurkennir að Grýlurós sé í mestu uppáhaldi hjá honum.

Spurður hvað taki við að jólabókaflóði loknu segist Hallgrímur stefna á myndlistarsýningu á næsta ári auk þess sem hann muni taka upp pennann til að byrja á þriðju bókinni í Sextíu kíló-bókaseríunni. Hann upplýsir einnig að hann sé með frumsamið samtímaleikrit í smíðum sem fjalli meðal annars um metoo og kvótann.

Hægt er að horfa á viðtalið við Hallgrím í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/224910/

Þættir