Heimsbyggðin taki á Ómíkron með skynsömum hætti

ERLENT  | 30. nóvember | 15:32 
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvatti ríki heims í dag til að halda ró sinni og grípa til „skynsamlegra“ aðgerða varðandi Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem dreifist nú hratt um heimsbyggðina.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvatti ríki heims í dag til að halda ró sinni og grípa til „skynsamlegra“ aðgerða varðandi Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem dreifist nú hratt um heimsbyggðina.

„Við köllum eftir því að öll aðildarríki grípi til skynsamlegra og hóflegra aðgerða til að draga úr áhættu,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, í dag.

Hann sagði að viðbrögð á heimsvísu verði að vera „róleg, samhæfð og vel skipulögð“.

Það er aðeins tæp vika frá því nýjasta afbrigði veirunnar uppgötvaðist í Suður-Afríku og var tilkynnt til WHO. Það hefur nú dreift sér víða um heim og nú þegar hafa mörg ríki sett á ferðatakmarkanir til að hefta útbreiðslu veirunnar.

WHO hefur hvatt þjóðir heims til að stíga varlega hvað slíkar takmarkanir varðar því þær geti verið ósanngjarnar gagnvart þeim þjóðum þar sem afbrigðið uppgötvaðist fyrst og dregið úr almennu veirueftirliti.

„Ég vil þakka Botsvana og Suður-Afríku fyrir að hafa uppgötvað, raðgreint og tilkynnt þetta afbrigði svona hratt,“ sagði Tedros. Hann bætti við að hann óttaðist að nú væri verið að refsa þessum ríkjum fyrir að hafa breytt rétt.

Vísindamenn í Suður-Afríku segja að nýja afbrigðið hafi stökkbreyst að minnsta kosti 10 sinnum, og WHO hefur sagt að það stafi mikil áhætta af því á heimsvísu. Tedros tekur þó fram að sem stendur þá viti menn ekki mikið um það hversu hættulegt Ómíkron-afbrigðið er í raun og veru.

„Við erum enn með fleiri spurningar en svör um hvaða áhrif Ómíkron hefur þegar það smitast á milli manna, alvarleika sjúkdómsins og áhrif rannsókna, meðferðir og bóluefni,“ sagði hann jafnframt.

Hann kveðst þó skilja að þjóðir vilji gera allt sem í sínu valdi stendur til að vernda sína ríkisborgara gegn afbrigði sem menn skilji ekki til hlítar. Hann segir þó einnig að hann hafi ekki síður áhyggjur af því að þjóðir séu að beita varnaraðgerðum sem byggi ekki á fyrirliggjandi gögnum og stuðli að meiri ójöfnuði.

Þættir