Kerecis verði næsti risinn á markaðnum

VIÐSKIPTI  | 9. desember | 10:55 
Tækifærin sem blasa við ísfirska nýsköpunarfyrirtækinu, ekki síst á Bandaríkjamarkaði, gefa vonir um að það verði næsti nýsköpunarsproti hér á landi sem verði tuga og jafnvel hundraða milljarða virði.

Flest bendir til þess að íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis verði næsti sprotinn í íslensku atvinnulífi til þess að springa út. Fyrirtækið stefnir á skráningu á markað i Svíþjóð eða Bandaríkjunum á næstu vikum og telja ráðgjafar fyrirtækisins að markaðsvirði þess muni stappa nærri 90 milljörðum króna strax í kjölfarið.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnaði fyrirtækið árið 2009 eftir að hann fékk hugljómun. Þá hafði hugurinn leitað áratugi aftur í tímann og til þeirra stund þegar hann stóð við roðflettivél í fiskvinnslu afa hans og ömmu á Ísafirði. Mundi hann þá að roðið minnti hann á líkhúð sem hann hafði handleikið í störfum sínum fyrir nýsjálenskt sáravörufyrirtæki. Eitt leiddi af öðru og rannsóknir sýndu fram á að íslenskt þorskroð getur, með réttir meðhöndlun, grætt alvarleg sár með betri árangri en aðrar vörur sem þróaðar hafa verið í þessu skyni.

Guðmundur er gestur Dagmála í dag.

mbl.is

Aðeins 2% markaðshlutdeild enn sem komið er

„Við erum með u.þ.b. 2% markaðshlutdeild á þessum sáramarkaði í dag. Með þennan milljarð [dollara] í vænt verðmæti. Ef við förum upp í 4% þá er verðmætið væntanlega tvöfalt. Þannig að í mínum huga er enginn vafi á því að Kerecis á bara eftir að vaxa og dafna og hafa jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf og verða sterkur og öflugur atvinnuveitandi á Ísafirði.“

Vísar Guðmundur þar til þess mats sérfræðinga að í kjölfar fleytingar fyrirtækisins á markað megi gera ráð fyrir því að virði félagsins vaxi í milljarð dollara á einu til tveimur árum. Það jafngildir 130 milljörðum króna, og yrði fyrirtækið þá jafn verðmætt og Kvika banki.

Næsti Össur eða Marel

Guðmundur hefur óbilandi trú á því að Kerecis eigi bjarta framtíð fyrir höndum og þegar hann er spurður út í hvort Kerecis sé næsti Össur eða Marel segir hann þetta:

„Við erum komin á þann stað að við erum orðinn sterkur og mikilvægur þátttakandi í íslensku atvinnulífi. Við erum einn af stærstu atvinnuveitendunum á Ísafirði, ekki síst með menntað starfsfólk. Við erum að skapa miklar gjaldeyristekjur fyrir þjóðina þannig að ég held að við séum búin að stimpla okkur inn sem mikilvægt fyrirtæki fyrir Ísland.“

Þættir