„Allar sýningar pólitískar í eðli sínu“

FÓLKIÐ  | 20. desember | 16:19 
„Mér finnst allar sýningar vera pólitískar í eðli sínu,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir sem á síðustu árum hefur vakið verðskuldaða athygli sem leikstjóri. Hún er gestur Dagmála í dag.

„Mér finnst allar sýningar vera pólitískar í eðli sínu,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir sem á síðustu árum hefur vakið verðskuldaða athygli sem leikstjóri, sviðshöfundur og dramatúrgur. Hún stundur nú framhaldsnám í leikstjórn við Listaháskólann í Helsinki samhliða því sem hún starfar sem listrænn stjórnandi Loftsins og Kjallarans í Þjóðleikhúsinu.

Gréta Kristín heillaðist ung af leikhúsinu og hélt um tíma að hún vildi verða leikari þar til hún uppgötvaði að henni fannst mun skemmtilegra að leikstýra. Hún komst ekki inn í Listaháskóla Íslands í fyrstu tilraun og stundaði því nám í bókmenntafræði og kynjafræði við Háskóla Íslands þar til hún komst inn á sviðshöfundabraut LHÍ í næstu tilraun. Segir hún það hafa nýst sér vel í námi og störfum að hafa fræðin með í farteskinu, enda hafi hún alla tíð haft mikinn áhuga á fræðunum, forminu, faginu og pólitíkinni í kringum leikhúsið og sviðslistir.

Sannfærð um að leikhúsið geti breytt heiminum

Sem sviðshöfundur og leikstjóri segist Gréta Kristín vera drifin áfram af þeirri sannfæringu að leikhús geti breytt samfélaginu og heiminum. „Tilgangurinn með því sem ég bý til er alltaf að hreyfa við, opna og hrista upp í hlutum,“ segir Gréta Kristín og tekur fram að hún sé í framhaldsnámi sínu í leikstjórn við Listaháskólann í Helsinki meðal annars að rannsaka pólitíkina í forminu sjálfu og hvaða kraftur myndist þegar fólk komi saman til að trúa einhverju sem er augljóslega lygi, eins og reyndin er í leikhúsinu.

„Þar fyrir mig er kjarninn að því hvernig strúktúrar í samfélaginu verða til og viðhalda sér af því að við komum saman og ákveðum að eitthvað sé rétt. Í leikhúsinu vitum við að það sem við erum að horfa á er í plati. Þar eru oft móment þar sem hægt er að leika sér með samkomulagið milli áhorfenda og þess sem er að gerast á sviðinu og þar með ávarpa það hvernig raunveruleikinn verður til,“ segir Gréta Kristin og tekur fram að hún sé í öllum sínum uppfærslum að vinna með sjálfsmeðvitaða sviðsetningu þar sem formið sjálft er ávarpað með einhverjum hætti í sýningunni.

Blikka áhorfendur þar sem allt er í plati

„Þessi aðferð, sem kemur úr hinsegin menningunni, opnaðist fyrir mér í lokaverkefninu mínu í Listaháskólanum á sviðshöfundabraut,“ segir Gréta Kristín og vísar þar til verksins Perflex eftir Marius von Mayenburg sem hún þýddi og staðfærði og setti upp undir titlinum Stertabenda.

Gréta Kristín segir að í sínum huga eigi sjálfsmeðvitaða sviðsetningin uppruna sinn í kynsegin menningunni. „Einföld leið til að útskýra þetta er ofleikur eða miklar stílíseringar þar sem þú blikar áhorfandann í gegnum áhorfið og minnir á að öll vitum við að þetta er leikhús og allt í plati,“ segir Gréta Kristín.

Viðtalið við Grétu Kristínu má horfa á í heild sinni í Dagmálum Morgunblaðsins. 

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/225649/

 

Þættir