„Leiðir til að lifa af“

FÓLKIÐ  | 20. desember | 16:22 
„Hinsegin sviðslistir rúma drag, kabarett og burlesk. Þetta hafa verið leiðir fyrir hinsegin fólk til að lifa af og skapa sér sinn eigin raunveruleika,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri sem er drifin áfram af persónulegri reynslu þess sem er ekki sýnilegur í samfélaginu.

„Stóri tilgangurinn í minni leikhúsvinnu er mín barnslega trú að leikhúsið geti breytt heiminum,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og sviðshöfundur sem er gestur Dagmála í dag.

Gréta Kristín segist trúa því að leikhúsið geti sýnt okkur fram á það að „það eru alls konar sannleikar sem við trúum sem vissulega halda röð og reglu á heiminum, en á sama tíma eru þessar reglur líka kúgandi fyrir fullt af fólki, fyrir þá sem una sér ekki innan þessa kerfis,“ segir Gréta Kristín sem segist drifin áfram af persónulegri reynslu sem hinsegin manneskja sem hafi upplifað það „að sjá mig hvergi í menningunni í kringum mig og fá þannig ekki staðfestingu á því að ég sé möguleg. Ég trúi því að leikhúsið geti sannað að það eru fleiri mögulegar leiðir til að vera til í þessum heimi heldur en það sem sögulega, borgaralega leikhús hefur sýnt okkur fram á.“

Á síðasta rúma ári hefur Gréta Kristín leikstýrt tveimur mjög áhugaverðum kynsegin sýningum. Sú fyrri var sviðsetning á Malarastúlkunni fögru, ljóðasöngvabálki Franz Schubert við ljóð Wilhelms Müller, sem frumsýnd var í Tjarnarbíói haustið 2020 með Svein Dúa Hjörleifsson í sönghlutverkinu. Sú seinni var sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn faggi í flutningi Bjarna Snæbjörnssonar sem frumsýnd var í Leikhúskjallara Þjóðleikhússins fyrr í haust. Handritið skrifuðu Gréta Kristín og Bjarni saman og Axel Ingi Árnason samdi tónlistina. 

Afar persónuleg sýning

„Með okkar hinsegin gleraugum sáum við samsvörun við hinsegin upplifunina um að reyna að finna sjálfan sig eða sjálft sig inni í og mitt á milli hins karllæga og kvenlæga og sviðsetja sig upp á nýtt,“ segir Gréta Kristín um Malarastúlkunnar fögru. „Það var magnað ferðalag og dúndur skemmtilegt að fara í gegnum greininguna á þessum ljóðabálki með þessum gleraugum,“ segir Gréta Kristín og bendir á að hinsegin sviðslistir rúmi meðal annars drag, kabarett og burlesk. „Þetta hafa verið leiðir fyrir hinsegin fólk til að lifa af og skapa sér sinn eigin raunveruleika. Á sama tíma eru þetta líka skapandi leiðir og hrikalega skemmtilegar.“

Mjög skapandi hindrun

 Gréta Kristín segir stórt hjarta í Góðan daginn faggi enda afar persónuleg sýning. „Okkur langaði með þessari sýningu að taka samtalið um hinsegin málefnið á dýpra plan. Það er partur af íslenskri þjóðarsál að við séum hinsegin paradís. Við vildum kafa dýpra í raunveruleika hinsegin fólks með því að segja söguna hans Bjarna, sem er samkynhneigður maður, og fjalla um hvaða sálrænu- og félagslegu áhrif það hefur á manneskju að alast upp í samfélagi þar sem er ekki gert ráð fyrir þér þó þú sért samþykktur. Þú ert samþykktur á forsendum kerfis sem er í raun ekki hannað fyrir þig,“ segir Gréta Kristín og bendir á hvaða áhrif það hafi á fólk að geta ekki endurspeglað sig í menningu samfélagsins.

„Án þess að ætla sér það og án þess að beita beinu, grófu ofbeldi eru samfélög samt að útskúfa hluta af fólkinu sem á að tilheyra samfélögunum. Við vildum skoða hvaða áhrif þetta hefur á manneskjuna að tilheyra kannski aldrei alveg samfélaginu,“ segir Gréta Kristín og bendir á að það birtist ákveðinn ómöguleiki í því að gera eins manns söngleik.


„Það var mjög skapandi hindrun, því það er ekki hægt að gera eins manns söngleik,“ segir Gréta Kristín kímin áður en hún bætir við: „En við gerum það samt.“ Upplýsir hún að til standi að fara með sýninguna í leikferð og sýna í öllum framhaldsskólum landsins.

Viðtalið við Grétu Kristínu má horfa á í heild sinni í Dagmálum Morgunblaðsins. 

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/225649/

 

Þættir