Augljóst að liðið mun tapa fimm eða sex núll

ÍÞRÓTTIR  | 30. desember | 13:26 
„Það var frábært að sjá íslenskt lið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar,“ sagði Hörður Snævar Jónsson, íþróttafréttastjóri hjá Torgi, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþáttar Morgunblaðsins, þegar rætt var um árangur kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu á árinu.

„Það var frábært að sjá íslenskt lið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar,“ sagði Hörður Snævar Jónsson, íþróttafréttastjóri hjá Torgi, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþáttar Morgunblaðsins, þegar rætt var um árangur kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu á árinu.

Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust, fyrst íslenskra liða, en liðið lék í B-riðli keppninnar ásamt París SG, Real Madríd og Kharkiv frá Úkraínu.

Blikar fengu eitt stig í riðlakeppninni en liðið lék sinn síðasta leik í riðlakeppninni um miðjan desember á meðan tímabilinu hér heima lauk í byrjun október.

„Það er ekki boðlegt að mótið sé búið um miðjan september eins oft er þegar það er spilað í Meistaradeildinni fram í desember og þá er augljóst mál að liðið mun tapa 0:5 eða 0:6 eins og raunin varð,“ sagði Hörður.

„Þetta gerir líka bara ótrúlega mikið fyrir þessi íslensku lið að spila á móti þessum stærstu liðum eins og París SG og Real Madríd og þetta er frábært svið fyrir þessa leikmenn til að sýna sig og sanna,“ bætti Eva Björk Benediktsdóttir við.

Áramótaþátt og íþróttauppgjör Dagmála í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir