Mun skjóta fast á Trump í ræðu í tilefni dagsins

ERLENT  | 6. janúar | 11:15 
„Munum við verða þjóð sem samþykkir að pólitískt ofbeldi sé venjubundið?“

Joe Biden Bandaríkjaforseti er sagður munu lofa því við landa sína, í ræðu sem hann heldur síðar í dag í tilefni af því að ár er liðið frá árásinni á bandaríska þinghúisð, að hann ætli sér að gera allt sem í hans valdi stendur, til þess að stýra Bandaríkjunum frá því að verða land þar sem pólitískar öfgar verði venjubundnar.

Fjölmiðlar Vestanhafs hafa fengið útdrátt úr ræðu Bidens á eftir og í henni mun hann vara Bandaríkjamenn við þeirri myrku framtíð sem bíður þeirra, ef ekki verður komið hlífiskildi yfir lýðræðislegar kosningar þar í landi.

„Munum við verða þjóð sem samþykkir að pólitískt ofbeldi sé venjubundið?“ mun Biden spyrja.

„Munum við verða þjóð þar sem flokksbundnar kjörstjórnir geta hnekkt lýðræðislegum vilja fólksins?“

„Við getum ekki leyft okkur að verða þannig þjóð,“ mun hann segja áður en hann biðlar til Bandaríkjamanna um að sjá „hið sanna“ í stað þess að lifa í „skugga lyga“.

 

Biden ætlar að skjóta fast að Trump

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að Biden muni rekja upp lygar forvera síns, Donalds Trump, og tíunda hvernig hann spann upp þá samsæriskenningu að hann sjálfur hafi verið sigurvegari kosninganna. Biden mun þannig minnast þess „hryllings“ sem átti sér stað fyrir réttu ári, dag sem Biden kallar „dimman dag“ í sögu Bandaríkjanna.

Ræðuhöld, sem Kamala Harris varaforseti tekur einnig þátt í, munu hefjast klukkan 14 að íslenskum tíma að undangengnum bænahöldum.

Slík er gjáin milli stjórnmálaflokkanna tveggja í Bandaríkjunum, ári eftir atburðina í þinghúsinu, að margir hátt settir repúblikanar hafa sagst ekki verða viðstaddir athöfnina.

Öldungadeildarþingmaður repúblikana og ótvíræður leiðtogi þeirra í bandaríska þinginu, Mitch McConnell, fer fyrir sendinefnd flokksins sem verður við útför fyrrum þingsmanns flokksins í Georgíu, einum þúsund kílómetrum frá Washington.

Og Trump, sem fyrst ætlaði að reyna að stela sviðsljósinu með blaðamannafundi þar sem halda átti upp á „afmæli“ árásarinnar, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann gerir lítið úr athöfn demókrata. Hann segir athöfnina vera eins konar messuhöld demókrata, til þess að reyna að blása á ólgubál sem þeir sjálfir kveiktu.

Þættir