Of margar stelpur sem gefast upp

ÍÞRÓTTIR  | 6. janúar | 13:40 
„Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera stelpa í snjóbrettaheiminum,“ sagði Ylfa Rúnarsdóttir, atvinnukona á snjóbretti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera stelpa í snjóbrettaheiminum,“ sagði Ylfa Rúnarsdóttir, atvinnukona á snjóbretti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ylfa, sem er 27 ára gömul, skrifaði undir samning við snjóbrettaframleiðandann Burton á síðasta ári en framleiðandinn er einn sá stærsti og þekktasti í snjóbrettaheiminum í dag.

Ylfa fékk sitt fyrsta snjóbretti í jólagjöf þegar hún var 13 ára gömul og féll strax fyrir íþróttinni en eftir að menntaskólaárunum lauk ákvað hún að hætta að keppa og einbeita sér að myndbandsgerð.

„Samfélagsmiðlar hafa hjálpað stelpum að koma sér á framfæri og þeir eiga stóran þátt í því að stelpur eru farnar að taka virkan þátt í íþróttinni,“ sagði Ylfa.

„Ég byrjaði á snjóbretti af því að mér finnst það gaman en svo fór ég að átta mig á því að þessi heimur þarf líka á kvenkynsfyrirmyndum að halda.

Það er allt of mikið um það að stelpur, og þá meina ég í öllum íþróttum, hætti af því að mótvindurinn er svo mikill og þær einfaldlega gefast bara upp,“ sagði Ylfa meðal annars.

Viðtalið við Ylfu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir