Má alveg spyrja ef maður er ekki viss

INNLENT  | 7. janúar | 12:28 
„Það besta sem þú getur gert er að leyfa mér að vera til. Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að segja eitthvað eða tala um eitthvað þá má alveg spyrja,“ segir Hekla Bjartur Haralds, 14 ára kynsegin unglingur.

„Það besta sem þú getur gert er að leyfa mér að vera til. Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að segja eitthvað eða tala um eitthvað þá má alveg spyrja. Maður verður ekkert reiður. Besta spurningin sem ég fæ er: hvaða fornöfn notar þú?“ segir Hekla Bjartur Haralds, 14 ára kynsegin grunnskólanemi og hinsegin aktívisti, í Dagmálum, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins.

Þar ræddi hán um upplifun sína af því að vera kynsegin unglingur.

Oftar spurt um og tekin fram persónufornöfn

Bjartur uppgötvaði ungt að hán væri hvorki stelpa né strák­ur og notar persónufornafnið hán.

Hán fagnar því að nýlega hefur það færst í vöxt að spurt sé um fornöfn í nafnahringjum meðal ungmenna, til dæmis í félagsmiðstöðvum.

Bjartur staðfesti að ákveðin vakning væri nú víða í sambandi við þetta, til dæmis á samfélagsmiðlum, þar sem margir notendur væru farnir að taka fram hvaða fornöfn þeir kysu.

„Mér finnst ekkert betra en að sjá sískynja fólk, sem er ekki trans það er að segja, kynna sig með fornöfnum, þótt það sé ekki eitthvað sem er endilega búist við af því,“ segir Bjartur, sem upplifir að miklar hræringar séu í hinseginmálum hér á landi.

„Áfram á ljóshraða“

„Það er mikið í gangi. Það er það sem fólk skilur ekki. Bara: „Ó, þú verður að gefa þessu smá tíma. Róm var ekki byggð á einum degi.“ En stundum þegar kemur að svona hinseginmálum, sérstaklega á Íslandi, þá er fólk sem er opið fyrir þessu – vill læra og skilja – og lærir og skilur með því að spyrja út í þetta. Þá förum við áfram á ljóshraða nánast,“ segir Bjartur.

Viðtalið við Heklu Bjart má heyra í heild sinni hér.

Þættir