Skelltu sér í æfingu í kolvitlausu roki (myndskeið)

200  | 25. janúar | 16:59 
Vel þekkt er að miklar annir eru hjá björgunarsveitum þegar veðrar illa. Það vakti því óneitanlega forvitni blaðamanns í heimavinnu á Kársnesinu að björgunarskipið Stefnir væri ekki á sínum stað í Kópavogshöfn

Vel þekkt er að miklar annir eru hjá björgunarsveitum þegar veðrar illa. Það vakti því óneitanlega forvitni blaðamanns í heimavinnu á Kársnesinu að björgunarskipið Stefnir af gerðinni Rafnar 1100 væri ekki á sínum stað í Kópavogshöfn.

Ekki reyndist þó um útkall að ræða heldur fjögur hreystimenni úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi harðákveðin að halda æfingu.

„Ef ekki á að æfa sig í vondu veðri hvenær á þá að æfa sig fyrir útköll í vondum veðrum?“ segir Vala Dröfn Hauksdóttir hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi þegar blaðamaður slær á þráðinn og spyr hvers vegna björgunarskipið Stefnir hafi lagt út þegar er appelsínugul veðurviðvörun.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/01/25/hundleidinlegt_vedur_i_dag/

Spurð hvort skipulagt hafi verið að fara í þessum vestanstormi, svarar Vala Dröfn því játandi. „Þegar þeir sáu spána fóru þeir strax að skipuleggja þetta.“ Þá hafi verið mikill kostur að geta náð æfingu í dagsbirtu til að geta séð aðstæðurnar og lært á þær. „Þá er auðveldara að fara í útkall í brjáluðu veðri — þegar maður þekkir bátinn.“

Bara hluti af þjálfuninni

Er þetta samt ekki klikkun að leggja út í þetta ótilneyddur?

„Nei nei,“ svarar Vala Dröfn og skellir upp úr. „Auðvitað flaug það í gegnum kollinn á manni – hvaða vitleysa er þetta í þeim – en þetta er bara alveg eins og með sleðana og jeppana. Við erum að fara í æfingar í öllum veðrum því fólk þarf að geta brugðist við og lært að vera úti í öllum veðrum. Það er það sem björgunarsveitarstarfið snýst um, að geta tekist ávið hvaða aðstæður sem er og ef þú ert bara að takast á við þetta í útköllum undir álagi er það ekkert sniðugt.“

Hún útskýrir að æfingar við þessar aðstæður geri fólki einnig kleift að meta hvort það treystir sér í útköll við erfiðar aðstæður. „Þetta er bara hluti af þjálfuninni.“

Æfingin gekk vel ef marka má innkomuna á mannskapnum. „Þeir voru að koma í hús, alsælir eftir góða siglingu. Ágætlega hristir.“

 

 

 

Þættir