Gerður í Blush er Markaðsmanneskja ársins

VIÐSKIPTI  | 3. febrúar | 12:29 
Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, er Markaðsmanneskja ársins 2021. Gerður er vel að titlinum komin en hún var aðeins 21 árs þegar hún setti verslunina Blush fyrst á laggirnar og hefur starfrækt hana alla daga síðan. Fyrirtækið Blush hefur hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki og einnig verið tilnefnt sem besta íslenska vörumerkið á markaðnum í dag.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, er Markaðsmanneskja ársins 2021. Valið var samhljóða álit dómnefnar sem skipuð var einstaklingum sem koma víðs vegar að úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Anna Fríða Gísladóttir, stjórnarmeðlimur ÍMARK og markaðsstjóri stafrænna miðla hjá BIOEFFECT, afhenti Gerði verðlaunin, að viðstöddum Árna Reyni Alfreðssyni framkvæmdastjóra ÍMARK sem jafnframt er formaður dómnefndar. 

Verðlaun­in eru veitt þeim ein­stak­lingi sem þykir hafa sýnt framúrsk­ar­andi ár­ang­ur í markaðsstarfi á líðandi ári, en við valið er leit­ast við að fá sem fjöl­breytt­ast­ar skoðanir úr at­vinnu­líf­inu, líkt og segir á vefsíðu ÍMARK. Í ár voru alls 40 einstaklingar tilnefndir sem Markaðsmanneskja ársins en dómnefndinni þótti Gerður Huld skara framúr. 

Gerður er vel að titlinum komin en hún var aðeins 21 árs þegar hún setti verslunina Blush fyrst á laggirnar og hefur starfrækt hana alla daga síðan. Fyrirtækið Blush hefur hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki og einnig verið tilnefnt sem besta íslenska vörumerkið á markaðnum í dag.   

„Ég er ennþá að reyna að átta mig á því hvað gerðist. Þetta er algerlega frábært. Ég sem er varla grunnskólagengin,“ segir Gerður undrandi en þakklát. „Ég hef aldrei verið neinn sérstakur námsmaður en ég hef alltaf verið skapandi í hugsun og getað talað og ég held að það hafi hjálpað mér mikið.“

 

Frumkvöðull sem fullnægir landanum

Gerður er sannkallaður frumkvöðull á sínu sviði en með hugrekkið að vopni hefur henni tekist að skapa rótgróið og farsælt fyrirtæki. „Þetta er alger ástríða í mínu lífi. Bæði það að reka fyrirtæki og skara framúr í markaðsmálum en líka bara að fullnægja landanum,“ segir Gerður en allt byrjaði þetta fyrir ellefu árum í þvottahúsinu heima hjá henni.

„Hver einn og einasti dagur er mikill lærdómur og ég er svo þakklát fyrir að hafa gripið tækifærið á sínum tíma,“ segir Gerður. „Við sérhæfum okkur í að selja hágæða kynlífstæki og sáum gat á markaðnum. Það var í raun ekki búið að uppfylla allar stöður á markaðnum þegar kom að kynlífstækjum,“ útskýrir hún. „Fyrstu þrjú, fjögur árin var þetta eins og dýrt áhugamál sem ég sinnti meðfram öðrum störfum. Um leið og ég fór að einbeita mér að þessari hugmynd, sem ég efaðist aldrei um, þá fyrst fór boltinn að rúlla. Ég þurfti fyrst og fremst bara að trúa því að ég væri rétta manneskjan til að fylgja minni eigin hugmynd eftir. Ég þurfti að vinna í því að finna sjálfstraustið mitt.“

Gerður hefur lagt mikla áherslu á markaðsmál síðustu ár og hefur innri markaðssetning fyrirtækisins verið ein helsta driffjöður velgengninnar. „Til að byrja með var skortur á fjármagni ógn hvað þetta varðar. Þá þurfti maður að vera úrræðagóður og finna lausnir,“ segir Gerður og segist oft hafa velt því fyrir sér með hvaða hætti hún gæti auglýst fyrirtækið án þess að þurfa að greiða fúlgur fyrir það. 

„Mín sérgáfa er að geta búið til gott efni sem fær góða dreifingu og fjölmiðlar hafa áhuga á að fjalla um,“ segir hún og nefnir efni á borð við skrifaðar greinar, samfélagsmiðlaefni og viðburði sem haldnir eru á vegum Blush. „Markaðssetning fyrir mér snýst ekki bara um birtingar. Það er ekki bara það að kaupa vefborða. Heldur er þetta heildin. Ástæðan fyrir okkar velgengni í markaðsmálum er þessi hugmynd um heildina,“ segir Gerður og vísar til margra ólíkra þátta í viðskiptaferlinu sem haldast í hendur og hámarka upplifun viðskiptavina Blush.

Hugmyndaauðgi Gerðar hefur gert það að verkum að hagnaður Blush nemur tugum milljónum á ári hverju. Gerður segir þó vert að taka það fram að enginn fari mistakalaust í gegnum vegferð fyrirtækjareksturs. 

„Ég hef gert mörg mistök. Það er í lagi að gera mistök og stundum nýt ég þess að gera þessi mistök því ef ég hefði ekki verið búin að gera nein mistök þá stæði ég ekki hér í dag,“ segir Gerður Huld Arinbjarnadóttir, Markaðsmanneskja ársins 2021. 

 

Í dómnefnd sat valinkunnur hópur fólks úr atvinnulífinu, háskóla- og fjölmiðlasamfélaginu:

Formaður dómnefndar: Árni Reynir Alfreðsson - Framkvæmdastjóri ÍMARK.
           
Anna Kristín Kristjánsdóttir – Hvíta húsið / SÍA (Samband íslenskra auglýsingastofa)
Andri Þór Guðmundsson – Ölgerð Egils Skallagrímssonar (Markaðsmanneskja ársins 2017)
Bjarney Harðardóttir – 66°North (Fyrrum Markaðsmanneskja ársins 2019)
Freyr Hákonarson – Studio M/Árvakur
Halldór Harðarson – 
Sjálfstæður ráðgjafi
Hildur Björk Hafsteinsdóttir – Síminn (fh. ÍMARK)
Sylvía Kristín Ólafsdóttir - Origo

Þættir