Ekki lengur Guðlaug Sóley þegar hún stígur á svið

INNLENT  | 19. maí | 10:33 
Tónlistarkonan Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, sem þekkt er undir listamannsnafninu Gugusar, þorði ekki að syngja fyrir framan sína eigin móður fyrir aðeins þremur árum síðan. Nú hefur hún spilað á mörgum af helstu tónlistarhátíðum landsins, samið lag sem var notað í þáttaröð á Netflix og er í þann mund að gefa út aðra plötu.

Tónlistarkonan Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, sem þekkt er undir listamannsnafninu Gugusar, þorði ekki að syngja fyrir framan sína eigin móður fyrir aðeins þremur árum síðan. Hún varð fyrir gagnrýni í grunnskóla fyrir sköpun sína og var lítt hrifin af reglum um beint bak og fingrasetningu í píanótímum sem hún gaf upp á bátinn eftir fjórar tilraunir. Nú er hún einungis 18 ára gömul og hefur þrátt fyrir það spilað á mörgum af helstu tónlistarhátíðum landsins, samið lag sem var notað í þáttaröð á Netflix og er í þann mund að gefa út aðra plötu.

Guðlaug Sóley er viðmælandi Ragnhildar Þrastardóttur í nýjasta þætti Dagmála. Þar fer hún yfir þetta ótrúlega ferðalag. Þátturinn er aðgengilegur áskrifendum í fullri lengd hér.

Ferill Guðlaugar, sem skapar raftónlist og syngur, fór almennilega af stað eftir að hún var valin rafheili Músíktilrauna árið 2019, þá 15 ára gömul. Fyrir þann tíma hafði hún varla sungið fyrir framan annað fólk.

 

Söng fyrir móður sína innan úr fataskáp

„Mamma var búin að vera að segja: „Ókei Guðlaug, ef þú ætlar að syngja þarna verður þú að þora að syngja fyrir framan mig,“ segir Guðlaug sem brá á það ráð að fara inn í fataskáp og syngja þar á meðan mamma hennar stóð fyrir framan hann.

En hún þurfti engan skáp í Músíktilraunum því á sviðinu fann Guðlaug karakterinn sem hún notar núna alltaf þegar hún fer á svið: Gugusar.

„Rétt áður en ég fer á svið finnst mér ég, Guðlaug Sóley, ekki lengur vera Guðlaug Sóley,“ segir Guðlaug. „Ég verð að gera það. Mér finnst óþægilegt að vera Guðlaug Sóley, geðveikt feimin á sviðinu og standa kyrr.“

Viðtal við Guðlaugu Sóley Höskuldsdóttur í fullri lengd

Þættir