Réttur farþega í flugi til skaðabóta, ef flug fellur niður eða seinkar, er alveg skýr. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna fer yfir þennan rétt og upphæðirnar sem eru staðlaðar, í Dagmálaþætti dagsins.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/06/22/tuttugu_farthegar_faerdir_i_adra_flugvel/
Breki upplýsir að ef flug tefst um tvær klukkustundir eigi farþegar rétt á hressingu á kostnað flugfélagsins og ef tafir eru meiri myndast réttur til skaðabóta. Gildir það jafnt í innanlandsflugi og millilandaflugi.
Verkföll eða bilanir hjá flugfélögum skerða ekki þennan rétt farþega.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/06/27/aflyst_vegna_haegagangs_og_astandsins_i_fluggeiranu/
Breki ræðir nokkur af þeim málum sem Neytendasamtökin eru að fást við. Meðal annars fyrirspurnir vegna vandamála sem upp hafa komið í tengslum við tafir og niðurfellingar á flugi. Breki ræðir einnig auknar tilraunir til að svindla á almenningi í gegnum netið og hvernig þær aðferðir hafa þróast og orðið ósvífnari. Hann lýsir einnig áhyggjum af gríðarlegri upplýsingaöflun fyrirtækja í gegnum samfélagsmiðla og fjölmörg forrit.
Breki er gestur Dagmála í dag í þætti sem varðar okkur öll. Hér má sjá brot úr þættinum þar sem Breki ræðir rétt flugfarþega. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.