Eini tilgangur barnabóka er að fá börn til að lesa

INNLENT  | 15. ágúst | 15:35 
Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell hófu að skrifa bækur og stofnuðu bókaforlag til að auka lestur barna og ungmenna. Að sögn Mörtu eiga barnabækur eiga ekki að hafa neinn annan tilgang en að fá börnin til að lesa.

Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell hófu að skrifa bækur og stofnuðu bókaforlagið Bókabeituna til að auka lestur barna og ungmenna. Að sögn Mörtu eiga barnabækur eiga ekki að hafa neinn annan tilgang en að fá börnin til að lesa.

Bókabeitan hefur gefið út á þriðja hundrað bóka, bækur fyrir alla aldurshópa, frá Hvolpasveitinni í harðsoðna glæpareyfara, þó höfuðáhersla sé á barnabækur. Í Dagmálum segir Marta að útgáfa barnabóka sé mjög dýr og markaðurinn eðlilega lítill en að því sögðu segir hún að útgáfuumhverfið hafi batnað til muna vegna aðgerða sem Lilja Alfreðsdóttir hafi beitt sér fyrir varðandi Auð, barna- og ungmennabókasjóð, sem styrkir útgáfu barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku, og endurgreiðslu á hluta kostnaðar við bókaútgáfu. „Þetta hefur skipt okkur miklu máli, rosalega miklu. Ég er ekkert að grínast með það sem ég hef sagt um launin mín, við vorum launalausar fyrstu árin til að halda útgáfunni gangandi, en maður getur ekki gert það lengi.

Það er gríðarlega mikilvægt að til séu bækur á íslensku, ef við ætlum að eiga íslensku sem tungumál. Við lifum í rosalega enskumiðuðu umhverfi og ef það eru ekki til góðar bækur á íslensku lesa börn og ungmenni á ensku. Það er í sjálfu sér fínt ef þau halda áfram að lesa, en maður heyrir það oft á talsmáta ungs fólks hve setningafræðin hefur mikið bragð af ensku. Orðaforðinn er líka minni, þau grípa mjög mikið til enskra orða, oft orða sem eru ekki almennt í talmáli, orð sem maður lærir þegar maður er að lesa.“

— Það var mikil umræða á netinu fyrir stuttu um lestrarkennslu og þar kom fram að fólki fannst ekki nóg áhersla á að láta börnin fá eitthvað skemmtilegt að lesa

„Það var einmitt ástæðan fyrir því að við fórum að skrifa Rökkurhæðir. Mjög mikið af því sem við höfðum verið að lesa þá byggði á því að það átti að kenna börnum eitthvað, og það eimir alltaf eftir af þeirri gömlu hugsun að bækur eigi að hafa tilgang. Barnabækur eiga ekki að hafa neinn annan tilgang en að fá börnin til að lesa bækur sem eru á góðu máli. Það sem við gerðum var að minnka umhverfislýsingar, gera bækurnar spennudrifnar og stækka stafina. Þannig gerðum við þær aðgengilegri í lestri og það virkaði bara rosalega vel. Við getum ekki bara sagt: Ó, ég er með svo skemmtilega sögu frá því ég var lítil í sveitinni og krakkar í dag þurfa að vita þetta. Það er fullt af krökkum sem vilja vita það var en það er líka fullt af krökkum sem vilja það ekki.“

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/231063/

 

Þættir