Senda helming læknanna í launalaust leyfi

VIÐSKIPTI  | 20. september | 10:32 
Forsvarsmenn Heilsugæslustöðvarinnar Höfða íhuga nú að senda helming lækna stöðvarinnar í launalaust leyfi til þess að bregðast við viðvarandi hallarekstri sem þeir segja tilkominn vegna mismununar.

Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Heilsugæslunnar Höfða segir lífsnauðsynlegt að fjármálaráðherra veiti auknu fjármagni til reksturs heilsugæslustöðva. Reiknilíkan sem komið var á fót árið 2017 mismunar einkareknum stöðvum og hinum opinberu þannig að mun minna fjármagn rennur til þeirra einkareknu.

mbl.is

Gunnlaugur er gestur í Dagmálum og lýsir þar því yfir að allar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu séu undir sömu sök seldar. Ef ekkert verði að gert, muni þær í raun sigla í þrot.

Þessum ummælum hafa forsvarsmenn Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi hins vegar mótmælt. Þannig hefur Einar Þór Sverrisson, sem er stjórnarformaður Heilsugæslu Reykjavíkur, sem rekur umrædda stöð, sagt að fyrirtækið stefni hreint ekki í þrot þótt bæta þurfi fjármagni til starfseminnar miðað við það sem nú er.

Bindur vonir við úrbætur

Gunnlaugur segist binda vonir við að í nýjum fjárlögum verði staða einkareknu stöðvanna bætt. Fram að því reynist hins vegar nauðsynlegt að grípa til aðgerða þar sem alls ekki megi koma til gjaldþrots. Eina færa leiðin sé að senda helming læknanna á Höfða í launalaust leyfi fram að áramótum. Það muni hins vegar skerða þjónustu við tugir þúsunda skjólstæðinga stöðvarinnar. Það sé illt að búa við það.

Í viðtalinu við Gunnlaug kemur fram að í kjölfar þess að reiknilíkanið fyrrnefnda, sem ákvarðar fjármagn til hverrar og einnar heilsugæslu, var komið á laggirnar hafi afköst aukist til muna. Þannig hafi þau aukist um 18% á fyrstu tveimur árunum eftir að líkanið var innleitt. Þá bendir hann á að einkareknu stöðvarnar fjórar á höfuðborgarsvæðinu (stöðvarnar eru 19 í heildina) hafi komið best út í þjónustukönnunum meðal almennings á síðustu árum.

Ráðherra bregst við

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir í skriflegu svari til Morgunblaðsins, sem birt er í blaðinu í morgun að mikilvægt sé að ná samningum við einkareknu heilsugæslustöðvarnar. Segir hann að starfshópur um fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar hafi verið að störfum og að þar eigi fulltrúar þeirra allra sæti við borðið.

Viðtalið við Gunnlaug má nálgast í heild sinni hér:

mbl.is

Þættir