Fyrirtækin gætu stækkað meira

VIÐSKIPTI  | 20. október | 11:19 
Jón Björnsson, forstjóri Origo segir of ríka tilhneigingu hér á landi til þess að setja fyrirtækjum, sem gætu sprungið út og orðið stór, mörk. Frekar ætti að ýta undir þátttöku í alþjóðlegri samkeppni.

Jón Björnsson, forstjóri Origo segir of ríka tilhneigingu hér á landi til þess að setja fyrirtækjum, sem gætu sprungið út og orðið stór, mörk. Frekar ætti að ýta undir þátttöku í alþjóðlegri samkeppni.

Origo var í liðinni viku valið nýsköpunarfyrirtæki ársins 2022 af Creditinfo. Það kom ekki síst til vegna sölu fyrirtækisins á 40% hlut í fyrirtækinu Tempo en fyrir söluna fékk fyrirtækið 28 milljarða í sinn hlut.

„Stjórn Origo og við sem erum að vinna í Origo erum að vinna að þessu verkefni að horfa á fyrirtækið til framtíðar og við teljum ákveðna möguleika í því. Sem fyrirtæki horfum við til þessara þriggja þátta sem stjórna lífi okkar, viðskiptavinirnir, starfsfólkið og svo hluthafarnir.

Ég treysti okkur alveg í þá vegferð. Það mikilvægasta sem mér finnst er að sú reynsla sem við höfum fengið og sú þekking sem hefur byggst upp innan þessa hóps að hún náist að nýtast íslensku atvinnulífi lengra. Af því að ég held að þegar kemur að hugviti þá ætti Ísland að reyna að stefna að því að standa algjörlega jafnfætis öðrum þjóðum.“

mbl.is

Gerum við það ekki í dag?

„Við gerum það að mörgu leyti og ég held að stjórnvöld og þeir aðilar sem t.d. í þeim ívilnunum sem eru gagnvart hugbúnaðarfyrirtækjum hafi staðið sig vel á síðastliðnum árum í að breyta því umhverfi. Ég held að það hafi verið flott. Ég held að við séum líka að gera flotta hluti í menntunarmálum líka þarna. En ég held að við setjum okkur oft þak á getu okkar og ég held að við eigum ekki að takmarka stærð fyrirtækja.

Við eigum að leyfa þeim að vaxa og taka þátt í samkeppninni, á hvaða stærðargráðu sem fyrirtækin eru. Svo verðum við að búa okkur til innviði. Ég segi bara eins og gagnaflutningar til og frá landinu með sæstreng. Ég hef pínulitlar áhyggjur af langtímaþróuninni þar. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af deginum í dag en ég hef kannski áhyggjur einhver ár fram í tímann að við náum ekki að standa jafnfætis öðrum þjóðum.“

Spurður út í það hvernig hömlur á stærð fyrirtækja í tæknigeiranum birtast segir Jón að það tengist ekki síst þaki á þá endurgreiðslu sem fyrirtæki geti sótt vegna nýsköpunar og þróunar.

Viðtalið við Jón má nálgast í heild sinni hér:

mbl.is

Þættir