„Stundum skil ég ekki hvernig henni tókst þetta“

INNLENT  | 24. nóvember | 22:25 
„Það kenndi mér líka bara svolítið að standa með sjálfri mér og svara fyrir mig. Ég er bara þakklát fyrir það,“ segir tónlistarkonan Una Torfa um það hvernig það var að alast upp verandi dóttir Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

„Það kenndi mér líka bara svolítið að standa með sjálfri mér og svara fyrir mig. Ég er bara þakklát fyrir það,“ segir tónlistarkonan Una Torfa um það hvernig það var að alast upp verandi dóttir Svandísar Svavarsdóttur stjórnmálakonu til margra ára.

„Ég er líka bara þakklát fyrir það að hafa aldrei þurft að skammast mín fyrir neitt sem hún gerir opinberlega,“ segir hún og bætir við að auðvitað hafi fólk fullan rétt á því að rökræða og hafa sínar skoðanir. „Það er bara partur af því að búa í lýðræðisríki.“

 

Svandís varð fyrst ráðherra þegar Una var aðeins átta ára gömul og segir hún það stundum hafa reynst henni erfitt.

„Það sem er erfitt er að vera barn og því ekki alveg inni í málunum, og eiga einhvern veginn að þurfa að svara fyrir eitthvað sem maður skilur ekki, þegar einhverjir aðrir krakkar, sem skilja ekki heldur, ætla að vera með stæla.“

Þar að auki hafi samband þeirra mæðgna aldrei snúist um pólitík. 

Hversu oft talar maður við foreldra sína um vinnuna þeirra hvort sem er?

„Nákvæmlega.“

Una var gestur Dagmála, þar sem hún ræddi lífið, listina og allt þar á milli.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/23/lagid_klarad_i_sendiferdabil_i_bandarikjunum/

„Náttúrulega bara bilun“

Svandís var, og líkt og kunnugt er, heilbrigðisráðherra meira og minna í gegnum heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Stuttu eftir fyrstu Covid-bylgjuna sumarið 2020 blasti síðan við erfitt verkefni.

„Það var náttúrulega bara bilun,“ segir Una en hún greindist með krabbamein í heila í júní 2020.

Kveðst Una oft fá spurninguna hvernig mamma hennar komst í gegnum faraldurinn þrátt fyrir allt sem gekk á. Því geti hún ekki svarað.

„Ég bara furða mig á þessu sjálf. Mér finnst hún bara svo mikil hetja. Og að hún hafi haldið haus í gegnum allan þennan faraldur. Það var svo mikil óvissa.“

 

Ánægð segist hún þó að Svandís hafi ekki reynt að leika einhverja hetju, líkt og ráðamenn í sumum löndum.

„Mér fannst hún bara standa sig ótrúlega vel og hún reyndist mér líka ótrúlega vel í mínum veikindum.

Stundum bara skil ég sjálf ekki hvernig henni tókst þetta.“

Þættir