„Nú yng­ir hún upp um 18 ár“

INNLENT  | 25. nóvember | 19:31 
„Ég gaf konunni bílinn í jóla- og afmælisgjöf og þarf ekkert að hugsa um það meira í mínu lífi! Mér finnst konan líta mig miklu bjartari augum núna,“ segir Þorvaldur Guðmundsson í Reykjanesbæ, vinningshafi í áskrifendahappdrætti Morgunblaðsins

„Ég gaf konunni bílinn í jóla- og afmælisgjöf og þarf ekkert að hugsa um það meira í mínu lífi! Mér finnst konan líta mig miklu bjartari augum núna,“ segir Þorvaldur Guðmundsson í Reykjanesbæ, vinningshafi í áskrifendahappdrætti Morgunblaðsins.

Nafn hans var dregið úr nöfnum allra áskrifenda í beinni útsendingu á K100 á fimmtudag. Kona Þorvaldar, Friðrika Jóhanna Sigurgeirsdóttir, á afmæli 4. desember. Þau fengu nýjan Toyota C-HR Hybrid, að verðmæti 6.290.000 krónur, afhentan í gær. En hvernig varð Þorvaldi við þegar honum var tilkynnt um vinninginn?

„Ég er dálítið hrekkjóttur og hef orðið fyrir hrekkjum sjálfur. Ég spurði manninn, sem hringdi og sagði að ég hefði unnið bíl, hver hann væri því ég þekkti ekki röddina. Hann sagðist vera ritstjóri Morgunblaðsins. Ég spurði hvort hann væri að meina þetta? Jú, hann sagðist gera það,“ segir Þorvaldur. „Ég sagði að ég tryði þessu ekki fyrr en ég sæi það gerast. Ég hef upplifað hrun, Covid og eldgos á Reykjanesi en aldrei áður lent í því að fara í bæinn og taka á móti splunkunýjum bíl án þess að taka upp veskið – ég átti ekki von á að upplifa slíkt ævintýri. Við hjónin erum hálfpartinn með tárin í augunum eftir þetta allt saman. Bíllinn er rosalega flottur!“

Friðrika kona Þorvaldar var við vinnu í Reykjavík og með kveikt á K100 þegar hún heyrði nafn Þorvaldar. Hún velti því ekkert frekar fyrir sér fyrr en Þorvaldur hringdi í hana. Þá spilaði hún upptöku af útsendingunni aftur. Friðrika vinnur í bænum og hefur farið á milli á gömlum bíl. „Ég skráði bílinn á hana. Nú yngir hún upp um 18 ár, eins og í textanum hans Bjartmars,“ segir Þorvaldur. „Við þökkum bara innilega fyrir okkur.“

Morgunblaðið þakkar Toyota kærlega fyrir samstarf um áskrifendahappdrættið og óskar Þorvaldi og Friðriku innilega til hamingju.

Þættir