„Eitt af verri árum“ síðari tíma

VIÐSKIPTI  | 30. desember | 10:01 
Miklar lækkanir á eignamörkuðum víða um heim og miklar vaxtahækkanir valda því að margir líta á árið 2022 sem eitt „hið versta“ í áratugi þegar litið er til viðskiptalífsins. Eignamarkaðir í Bandaríkjunum hafi t.d. ekki herpst jafn mikið síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar.

Sannkallað gjörningaveður hefur geisað á fjármála- og eignamörkuðum vítt og breitt um heiminn á árinu sem nú er að líða. Þessi staða er til umræðu í viðtali þar sem bankastjórar allra stóru viðskiptabankanna þriggja mæta á vettvang Dagmála til þess að gera árið upp.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segir að miklar áskoranir hafi mætt bankakerfinu á árinu og að fjárfestar um heim allan líti á árið 2022 sem eitt hið versta í manna minnum. Hins vegar sé mikill sláttur á hagkerfinu hér innanlands og það kunni að valda því að upplifun Íslendinga af stöðunni sé nokkuð önnur en víða annarsstaðar.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans tekur undir þetta en segir þó standa upp úr að gríðarleg tækifæri standi íslensku efnahagslífi opin, sé rétt haldið á spilum.

Versta árið frá kreppunni miklu

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka bendir á að í upphafi árs hafi horfurnar verið mjög góðar og bjartsýni ríkt. Hins vegar hafi hlutir þróast á annan veg en væntingar stóðu til.

„Það er ekki mikið talað um það og ég er sammála Birnu og Lilju að fólk gerir sér ekki almennilega grein fyrir því hvað þetta er búið að vera slæmt ár. Því að í blönduðu eignasafni, hlutabréfa og skuldabréfa til helminga, hefur í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægra síðan 1932 því báðir eignaflokkar hafa lækkað svo mikið í verði. Þannig að þetta er búið að vera mjög erfitt ástand.“

Þrátt fyrir það megi ekki horfa aðeins á dökku hliðarnar, t.d. hafi hugverkaiðnaðurinn vaxið gríðarlega hér á landi á yfirstandandi ári og mörg athyglisverð fyrirtæki að spretta fram á sjónarsviðið.

Viðtalið við bankastjórana þrjá má nálgast í heild sinni hér:

mbl.is

Þættir