Edda Hermanns fékk áminningu vegna vinnustaðahúmors

SMARTLAND  | 23. janúar | 15:46 
„Þegar ég kom í bankann upphaflega þá fékk ég áminningu frá einum sem var að vinna með mér að ég þyrfti kannski aðeins að passa mig aðeins í þessum húmor mínum,“ segir Edda.

Edda Hermannsdóttir markaðsstjóri Íslandsbanka er viðmælandi í sjónvarpsþáttunum Þær sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans. Í þáttunum er talað við íslenskar framakonur um vinnuna og hvernig þær hafa klifið metorðastigann.

Í þættinum kemur fram að Edda leggi mikið upp úr því að gera grín á vinnustaðnum sínum en Kjartan, samstarfsmaður hennar, segir að hún gangi stundum aðeins of langt. 

„Eitt sem lýsir henni til dæmis vel er að þegar við vorum að skipuleggja það að ég kæmi í þennan þátt þá sendir hún póst á fólk sem ég þekki ekki neitt um að ég sá haldinn svæsnum kynsjúkdómi og þurfi að vera alveg heima þessa vikuna. Ég sem sagt fékk Covid. Ég sprakk úr hlátri og fannst þetta hryllilega fyndið. En maður hugsar aðeins hvað fólk haldi í alvörunni. Heldur fólk að ég sé bara með lekanda heima hjá mér? Það sem hún gerir líka reglulega sem ég þoli ekki er að hún finnur fréttir,“ segir Kjartan, samstarfsmaður Eddu í Íslandsbanka. Er hann þá að vísa í þá iðju hennar að taka fréttir af vefmiðlum sem fjalla um ófarir annarra og láta þær líta út eins og Kjartan hafi komist í hann krappan. 

„Mér finnst nauðsýnlegt að það sé húmor í öllu sem maður gerir. Hvort sem maður er að koma fram eða í vinnunni. Húmor gerir hlutina skemmtilega og maður tekur sig ekki of hátíðlega. Þegar ég kom í bankann upphaflega þá fékk ég áminningu frá einum sem var að vinna með mér að ég þyrfti kannski aðeins að passa mig aðeins í þessum húmor mínum,“ segir Edda í þættinum Þær. 

https://www.mbl.is/smartland/frami/2023/01/05/sunneva_asa_faerdi_midbaeinn_upp_a_hofda/

 

Þættir