Segir Bakmút „svo gott sem umkringda“

ERLENT  | 3. mars | 15:37 
Jevgení Prígosjín, öðru nafni „kokkur Pútíns“ og helsti fjárhagslegi bakhjarl rússnesku Wagner-sveitarinnar, segir í myndskeiði á samfélagsmiðlinum Telegram að iðnaðarborgin Bakmút í Austur-Úkraínu sé „svo gott sem umkringd“.

Jevgení Prígosjín, öðru nafni „kokkur Pútíns“ og helsti fjárhagslegi bakhjarl rússnesku Wagner-málaliðasveitarinnar, segir í myndskeiði sem hann birtir á samfélagsmiðlinum Telegram að iðnaðarborgin Bakmút í Austur-Úkraínu sé „svo gott sem umkringd“, aðeins einn akvegur sé enn sem komið er ekki á valdi sveitarinnar.

Samtímis þessu berast Vesturlöndum viðvaranir frá Kreml þar sem þeim er tekinn allur vari á að útvega Úkraínumönnum meiri vopnabirgðir en nú hafa verið sendar þeim.

Úkraínumenn segjast munu verja „virkið Bakmút“ eins lengi og stætt sé á, en embættismenn þar í landi játuðu fyrr í vikunni að æ meira væri á brattann að sækja í varnarbaráttunni. Rússar eru harðákveðnir í að ná Bakmút á sitt vald, borg sem eitt sinn var þekkt að freyðivínsframleiðslu sinni. Er hertaka borgarinnar liður í því markmiði þeirra að leggja allt Donetsk-héraðið undir sig.

Hafa varið Bakmút mánuðum saman

Prígosjín hefur með reglulegu millibili birt ýmsar yfirlýsingar um framgang Wagner-hópsins á Telegram en fram að átökunum í Úkraínu hafa Wagner-liðar verið fremur torséðir og ekki til umræðu opinberlega af hálfu stjórnandans. Hafa málaliðarnir dúkkað upp á átakasvæðum víða um heim, svo sem í Sýrlandi, Mósambík, Lýbíu og Súdan auk þess að tengjast námuvinnslu gulls og demanta í Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu.

Úkraínskir hermenn hafa varið Bakmút mánuðum saman og er borgin meira og minna rústir eftir ítrekaðar stórskotaliðsárásir. Volódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði fyrr í vikunni að átökin í Bakmút gerðu ekkert annað en að færast í aukana.

Talið er að aðeins um 4.500 óbreyttir borgarar hafist enn við í Bakmút en íbúafjöldi þar var 70.000 áður en stríðið braust út.

Þættir