Gagnrýnir framkomu formanns VR

INNLENT  | 9. mars | 12:49 
Elva Hrönn Hjartardóttir, frambjóðandi til formanns í VR, telur að formaður VR hafi sýnt óboðlega og ósæmandi framkomu við gerð kjarasamninga í Karphúsinu fyrr í vetur.

Elva Hrönn Hjartardóttir, frambjóðandi til formanns í VR, telur að formaður VR hafi sýnt óboðlega og ósæmandi framkomu við gerð kjarasamninga fyrr í vetur. Hann var andsnúinn samningnum en mikill meirihluti stjórnar vildi semja og félagsmenn staðfestu hann sömuleiðis með afgerandi hætti þó formaðurinn mælti ekki með honum.

Þetta kemur fram í viðtali Dagmála við Elvu Hrönn, sem átelur vinnubrögðin harðlega. „Ef þú skrifar undir samning, þá ertu búinn að skrifa undir samninginn og stendur með þeirri ákvörðun.“

Hún lýsir því meðal annars hvernig Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi farið í fússi úr Karphúsinu í desember síðastliðnum eftir að stjórn félagsins hafði samþykkt nýjan kjarasamning í andstöðu formannsins. Með því hafi hann sýnt bæði viðsemjendum atvinnurekenda og meðsemjendum í launþegahreyfingunni virðingarleysi.

Aðfarir á vettvangi ASÍ

Það sé því miður ekki eindæmi. „Það er ekki af ástæðulausu sem [Drífa Snædal] forseti ASÍ segir af sér í fyrra fyrir þing ASÍ. Hún treysti sér ekki til þess að standa í þessu lengur, þessari endalausu togstreitu, þessum endalausu aðförum að sér,“ segir Elva.

„Fyrir mér er þetta ekki boðleg hegðun hjá formanni stærsta stéttarfélags landsins,“ segir hún og bætir við að forystumenn í launþegahreyfingu eigi ekki að notfæra sér stéttarfélögin í persónulegri valdabaráttu.

Farið er vítt yfir sviðið í viðtali Dagmála við Elvu Hrönn, sem birt var í dag og sjá má í heild sinni hér. Dagmál er streymi Morgunblaðsins og er opið öllum áskrifendum.

Formannskosning í VR hófst í dag og stendur til næsta miðvikudags. Hún fer fram á vef félagsins, vr.is.

Þættir