Vill draga úr átökum og sundrungu

INNLENT  | 14. júní | 14:40 
„Forsetinn er æðsti kjörni fulltrúi þjóðarinnar. Honum ber að flytja mál hennar, efla einingu og samhug. En forseti þarf stundum að taka erfiðar ákvarðanir varðandi myndun ríkisstjórna og beitingu málskotsréttarins.“ Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson um hlutverk forseta Íslands.

„Forsetinn er æðsti kjörni fulltrúi þjóðarinnar. Honum ber að flytja mál hennar, efla einingu og samhug. En forseti þarf stundum að taka erfiðar ákvarðanir varðandi myndun ríkisstjórna og beitingu málskotsréttarins sem er lýðræðislegur réttur þjóðarinnar til að ákveða endanlega hin stærri mál.“

Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson um hlutverk forseta Íslands.

„Á síðari árum er forseti í auknum mæli orðinn talsmaður þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi, bæði í vörn og sókn. Hann getur líka leitt saman fjölmarga sem eru að gera skapandi hluti vítt og breitt um samfélagið. Verkefnin eru margskonar; þau eru heillandi og brýn, en geta oft líka verið erfið.“

Hvers vegna gefur þú kost á þér nú í fimmta skiptið? „Meira en 30.000 Íslendingar skoruðu á mig að standa vaktina áfram á þessum óvissutímum og tryggja að á Bessastöðum væri festa og reynsla. Auk þessa tel ég að á næstu árum geti ég, í krafti reynslu minnar og þekkingar, lagt meira af mörkum en margir aðrir til að draga úr þeim átökum, sundrungu og deilumálum sem um of hafa verið á borði þjóðarinnar. Það þarf að gera í samvinnu við stjórnvöld, forystumenn almannasamtaka og þjóðina alla. Þannig væri hægt að tryggja að stofnanir eins og Alþingi og aðrar grundvallarstofnanir í samfélaginu færu að njóta trausts.

Það er alvarlegt hættumerki í okkar stjórnskipun þegar innan við 10% þjóðarinnar treystir Alþingi. Einnig tel ég að við Dorrit getum lagt mikið af mörkum til þess að greiða fyrir nýjum hugmyndum og rétta ungu fólki hjálparhönd við að verða í senn öflugir Íslendingar og athafnasöm á heimsvísu.“

Ólafur Ragnar verður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu um helgina ásamt öðrum forsetaframbjóðendum.

Þættir