Írar birta Katrínarmyndirnar

FÓLKIÐ  | 15. september | 16:25 
Breska konungsfjölskyldan fordæmdi í dag birtingu írska blaðsins Irish Daily Star á ljósmyndum sem sýna Katrínu, hertogaynju af Cambridge, berbrjósta í sumarfríi með eiginmanni sínum Vilhjálmi Bretaprins.

Breska konungsfjölskyldan fordæmdi í dag birtingu írska blaðsins Irish Daily Star á ljósmyndum sem sýna Katrínu, hertogaynju af Cambridge, berbrjósta í sumarfríi með eiginmanni sínum Vilhjálmi Bretaprins. 

Ritstjóri blaðsins, Mike O'Kane, sagði í samtali við bresku sjónvarpsstöðina BBC í dag að myndirnar myndu hvorki birtast í breskri né norðurírskri útgáfu blaðsins.  

Segist ekki þurfa að biðjast afsökunar

Talsmaður hirðarinnar sagði að eina ástæðan fyrir myndbirtingunni væri fégræðgi. Ennfremur varaði hann ítalska tímaritið Chi við því að birta myndirnar af Katrínu eins og fyrirhugað er, slík birting myndi koma hertogaynjunni í „verulegt uppnám“.

O'Kane segir að aðalástæða birtingarinnar sé vissulega að selja fleiri blöð, en hann segist ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu. „Hertogaynjan fær ekkert aðra meðferð en önnur frægðarmenni,“ sagði hann við BBC.

Í gær höfðaði konungsfjölskyldan mál á hendur franska tímaritinu Closer, sem fyrst birti myndirnar, á þeim forsendum að með myndbirtingunni hefði verið brotið gegn friðhelgi einkalífsins.

Elt á röndum eins og Díana prinsessa

Í kjölfar myndbirtingarinnar hefur verið rifjað upp hvernig ljósmyndarar eltu Díönu prinsessu, móður Vilhjálms, á röndum.

Myndirnar af Katrínu voru teknar er hjónin voru í fríi í Provence-héraði í Suður-Frakklandi en þar dvöldu þau í höll sem er í eigu vísigreifans af Linley, sem er systursonur Elísabetar Englandsdrottningar.

Þættir