Pöntuðu tvær milljónir af iPhone á sólarhring

TÆKNI  | 17. september | 18:41 
Tæknirisinn Apple fékk meira en tvær milljónir pantana fyrir nýjustu gerð iPhone-snjallsímans á einum sólarhring. Þessi mikla eftirspurn leiðir til þess að margir munu ekki fá afhent sitt eintak af símanum fyrr en í októbermánuði.

Tæknirisinn Apple fékk meira en tvær milljónir pantana fyrir nýjustu gerð iPhone-snjallsímans á einum sólarhring. Þessi mikla eftirspurn leiðir til þess að margir munu ekki fá afhent sitt eintak af símanum fyrr en í októbermánuði.

Phillip Schiller, varaforseti heimsmarkaðsdeildar Apple, sagði að pantanir á iPhone 5 hefðu slegið öll fyrri met. Sagði hann að viðbrögð viðskiptavina við iPhone 5 hefðu verið stórkostleg. Fyrstu viðskiptavinirnir í Bandaríkjunum og nokkrum öðrum löndum munu fá sitt eintak afhent 21. september næstkomandi. Hins vegar sagði í tilkynningu frá Apple að vegna eftirspurnarinnar myndu margir þurfa að bíða fram í október.

Apple frumsýndi hina nýju útgáfu símans á miðvikudaginn í síðustu viku og opnaði fyrir fyrirframpantanir á föstudaginn. Gert er ráð fyrir að síminn verði fáanlegur í um hundrað löndum við lok ársins. Sumir markaðsfræðingar telja að Apple muni selja um 10 milljónir eintaka fyrstu dagana sem hann verður í almennri sölu og 50 milljónir áður en árið er úti.

 

Þættir