Enginn í haldi vegna íkveikju

INNLENT  | 20. ágúst | 10:18 
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að vinna úr vísbendingum sem hafa borist í tengslum við íkveikju fyrir utan bílaumboðið Öskju um fimm í nótt. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við íkveikjuna. Forstjóri Öskju segir að átta bifreiðar hafi skemmst í brunanum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að vinna úr vísbendingum sem hafa borist í tengslum við íkveikju fyrir utan bílaumboðið Öskju um fimm í nótt. 

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns er verið að vinna úr vísbendingum sem hafa borist til lögreglu og eins er verið að skoða myndefni úr öryggismyndavélum.

Að sögn Kristjáns virðist sem kveikt hafi verið í tveimur bifreiðum og eldur síðan borist í nærliggjandi bifreiðar. 

Fjölmennt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í slökkvistarfinu í nótt. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við íkveikjuna.

Frétt

Átta bílar eru ýmist ónýtir eða mikið skemmdir eftir bílbruna við bílaumboðið Öskju snemma í morgun. „Að öllum líkindum er stór hluti bílanna ónýtur,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, og kveður tjónið vera töluvert.

Bílarnir átta voru allir skráðir og voru fjórir af þeim í eigu Öskju, en hinir fjórir voru í eigu viðskiptavina fyrirtækisins og á leið á þjónustuverkstæðið. „Við erum núna að vinna að því að upplýsa þá eigendur um stöðu mála,“ segir Jón Trausti.

Hann kveður mikla mildi að ekki fór verr og að eldurinn náði ekki að læsa sig í húsið. „Því eins og sést á myndunum þá var þetta talsvert mikill eldur,“ segir hann og bætir við að bílar séu enda eldfimir.

Jón Trausti segir slökkviliðið hafa brugðist skjótt við, sem og öryggisfyrirtækið sem vaktar fyrirtækið. Það var vaktmaður hjá öryggisfyrirtækinu sem varð fyrst var við eld í bíl. „Þá var það einn bíll og það var um fimmleytið sem það var, þannig að eldurinn breiddist hratt út.“

Auk þeirra átta bíla sem brunnu er einn til viðbótar þakinn sóti. „Við eigum eftir að meta skemmdir á þeim bíl,“ segir Jón Trausti. „Þetta er bara í vinnslu núna og verður unnið úr þessu í dag í samstarfi við lögreglu og tryggingafélög.“  

Eldsvoðinn hefur að hans sögn þó, sem betur fer, engin áhrif á daglega starfsemi Öskju. „Okkur þykir hins vegar miður að svona hafi gerst og vonum að lögregla finni fljótt úr því hver upptök eldsins eru.“

Öryggismyndavélar eru utan á húsum Öskju og segir Jón Trausti þar vera a.m.k. átta vélar. „Það er verið að fara yfir efni úr þeim í þessum töluðu orðum,“ segir hann. Myndavélar séu einnig á nærliggjandi fyrirtækjum og það verði væntanlega vinna lögreglu næstu daga að fara yfir það efni.

Þættir