„Hvaða rugl er í gangi?“

INNLENT  | 21. september | 15:40 
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekist að hafa uppi á konunum tveimur sem brutust inn í hjálpartækjabúðina Adam og Evu í nótt. Eigandinn segir að heildartjónið nemi á bilinu einni til einni og hálfri milljón króna. Sílikondúkkunni Kittý, sem kostar 350 þúsund krónur, var stolið.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekist að hafa uppi á konunum tveimur sem brutust inn í hjálpartækjabúðina Adam og Evu við Kleppsveg í nótt.

Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa hafa engar vísbendingar borist enn sem komið er. Grunur leikur á um að þjófarnir hafi verið á stolnum bíl en honum var ekið með offorsi nokkrum sinnum á útidyrahurð búðarinnar, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi frá eiganda búðarinnar. 

Verið er að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum. Innbrotið varð um klukkan 5.30 í nótt. Vísir greindi fyrst frá málinu. 

Sílikondúkkunni Kittý stolið

Þorvaldur Steinþórsson, eigandi Adams og Evu, segir að heildartjónið nemi á bilinu einni til einni og hálfri milljón króna. Hann segir að sílikondúkkunni Kittý hafi verið stolið að verðmæti um 350 þúsund krónur, auk einhverju af titrurum og sleipiefni.

Heildartjón upp á eina til eina og hálfa milljón

Mesta tjónið varð þó vegna skemmdanna sem urðu er bílnum var ekið á húsið. Öryggishliðið sem þar var er ónýtt, neonskilti líka, auk styttu sem var við innganginn. Tvöföld útidyrahurðin er einnig ónýt, sem að sögn Þorvalds var mjög sterk og hafði aldrei verið brotin upp áður. Glerið í henni hafði aftur á mótið verið brotið af og til í gegnum árin. „Við vorum nýbúnir að fá öryggisgler í það. Það átti að halda en það var bara keyrt á ítrekað,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

 

Langt seilst fyrir lítið

Myndbandið sýnir hversu innbrotið var ófyrirleitið. Tvær konur sjást þar hlaupa út úr bílnum eftir að hafa ekið á búðina og þaðan hafa þær meðal annars með sér dúkkuna Kittý.

„Það tekur svolítið mikið á að sjá hvers konar harka er að færast í þennan heim og hversu langt er seilst að mínu mati fyrir lítið. Húsið er stórskemmt og bíllinn er stórskemmdur fyrir eina sílikondúkku. Hvaða rugl er í gangi?“ segir hann.

Síðast brotist inn á föstudaginn langa

Spurður út í fyrri innbrot segir Þorvaldur greinilegt að búðin er vinsæl. Síðast hafi verið brotist inn á föstudaginn langa, þá var kona líka á ferðinni. „Þetta er greinilega stelpubúð ef maður getur sagt svo. Búðin sem stelpurnar brjótast inn í. Það er orðið ákveðið jafnrétti í þessu þegar konur eru í meirihluta af innbrotsþjófum. Öðruvísi mér áður brá.“

 

„Einhverjar Thelma and Louise þarna“

Þorvaldur kveðst ekki vita hvaða konur voru þarna á ferðinni en bendir á þær hafi verið að stela bensíni á þennan sama bíl í gærkvöldi. Bílaleigu hafði borist tilkynning um það en svo virðist sem bílnúmeraplatan sé stolin. „Þannig að þetta eru einhverjar Thelma & Louise þarna sem eru búnar að stela bensíni og keyra inn í Adam og Evu. Maður bara spyr sig hvar þær koma við næst?“ greinir hann frá og vísar þar í samnefnda kvikmynd með Geenu Davis og Susan Sarandon í aðalhlutverkum. 

Varðandi bílinn sem var notaður í innbrotinu vill hann að fram komi að sumir telji að um Hyundai i30 hafi verið að ræða en aðrir sjónarvottar, sem höfðu heyrt lætin er bílnum var ekið á búðina, telji að þetta hafi verið lítil, grá Toyota. „Við viljum endilega ef viðkomandi sér þennan bíl að tala við lögregluna.“

 

Þættir