Gefa geitur, skólastofur og smokka

INNLENT  | 16. desember | 15:14 
Um árabil hefur verið hægt að styrkja góð málefni um hátíðarnar með gjafabréfum. Sífellt bætist í flóruna og verkefnin sem hægt er að styrkja eru mörg. Salan er mikilvæg fjáröflun fyrir samtök og stofnanir á borð við Hjálparstarf kirkjunnar, UNICEF á Íslandi og UNWomen.

Um árabil hefur verið hægt að styrkja góð málefni um hátíðarnar með gjafabréfum. Sífellt bætist í flóruna og verkefnin sem hægt er að styrkja eru mörg en hér er stiklað á stóru og fjallað um þau helstu. Salan er mikilvæg fjáröflun fyrir samtök og stofnanir á borð við Hjálparstarf kirkjunnar, UNICEF á Íslandi og UNWomen og í myndskeiðinu er rætt við starfsfólk þar. 

„Geitin er vinsælust hjá okkur,“ segir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar en samtökin hafa lengi boðið upp á „Gjafir sem gefa“ og geiturnar, sem nú eru gefnar fjölskyldum í Úganda sem búa við fátækt, virðast höfða til Íslendinga sem hafa gefið þúsundir geita í gegnum tíðina. 

Geiturnar kosta 3200 krónur en hægt er að kaupa gjafabréf upp í 180 þúsund krónur inni á gjofsemgefur.is en fyrir þá upphæð er byggður nýr brunnur í Eþíópíu. Með því að styrkja málefnin eða fá þau að gjöf les fólk sér til verkefnin og tengist þeim betur, sem er líka mjög mikilvægt að sögn Kristínar. Önnur dæmi um verkefni eru frístundastyrkir fyrir efnalitlar fjölskyldur hér á landi, smokkakaup í Afríku og bóluefni. 

Hjá UNICEF er m.a. hægt að kaupa skóla í kassa á sem inniheldur allt sem þarf til að til að hefja kennslustund í flóttamannabúðum og skapa nauðsynlega reglufestu fyrir börn þar sem neyðaraðstæður hafa skapast. Inni á sannargjafir.is er líka hægt að kaupa neyðartjald á 155 þúsund krónur sem verður reist í þar sem neyð ríkir vegna stríðsástands eða náttúruhamfara.

Allur gangur er á því hvort fólk gefi gjafirnar eða kaupi þær til að styrkja gott málefni í eigin nafni en yfirleitt er hægt að senda persónulegar kveðjur með kortunum sem eru gjarnan mjög skemmtilegar að sögn Kristínar.

UN Women bjóða upp á Vonarneistan en samtökin velja alltaf eitt málefni um hver jól sem þau leggja áherslu á. Í ár eru það rohingjakonur í Bangladess sem njóta góðs af sölu Vonarneistans en um 400 þúsund konur eru þar á flótta og hafa margar upplifað hræðilegt ofbeldi og mikla erfiðleika. Gjöfin kostar 3990 krónur og fyrir upphæðina fær ein kona hreinlætisvörur, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar. 

Umfjöllun mbl.is um rohingja á flótta. 

Þættir