mbl | sjónvarp

Vinnuvélar slá taktinn í miðbænum

INNLENT  | 20. september | 12:40 
Framkvæmdirnar við Hótel Reykjavík sem nú rís í Lækjargötu hafa ekki farið fram hjá þeim sem stunda nám og starfa í miðbænum. Þung taktföst högg stórvirkra vinnuvéla heyrast langar vegalengdir en í næsta nágrenni eru vel á annað þúsund nemendur á hverjum degi í Kvennaskólanum, MR og Tjarnarskóla.

Framkvæmdirnar við Hótel Reykjavík sem nú rís í Lækjargötu hafa ekki farið fram hjá þeim sem stunda nám og starfa í miðbænum. Þung taktföst högg stórvirkra vinnuvéla heyrast langar vegalengdir en í næsta nágrenni eru vel á annað þúsund nemendur á hverjum degi í Kvennaskólanum, MR og Tjarnarskóla.

mbl.is var í bænum í gær og fékk smjörþefinn af hávaðanum sem glymur í miðborginni á virkum dögum, meðal annars má heyra hvernig takturinn er sleginn í kennslustofu í Kvennaskólanum. Hjalti Jón Sveinsson, rektor skólans, segir að mikil truflun sé á skólastarfinu vegna framkvæmdanna en mestur hávaðinn heyrist þegar vinnuvél er að berja niður stór málmstykki ofan í jörðina.

Hjalti gagnrýnir að ekki hafi verið haft meira samráð við starfsemi á svæðinu áður en framkvæmdir hófust í ágúst. Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, tekur undir að hamarshöggin trufli skólastarfið þar. Upphaflega var gert ráð fyrir að þessum hluta framkvæmdanna lyki í dag, 20. september. Á fundi skólastjórnendanna með framkvæmdaaðilum kom í ljós að bið verður á því og þau Hjalti og Elísabet gera ekki ráð fyrir að höggin hætti fyrr en í nóvember.  

Fleiri vinnustaðir á borð við Alþingi, Dómkirkjuna og fjölda veitingastaða, hótela og verslana eru nálægt framkvæmdasvæðinu og starfsfólk þar þarf því að búa við óminn af framkvæmdunum, svo ekki sé minnst á íbúana í kring.

Loading