mbl | sjónvarp

Horfði í augu Woodwards og held að Solskjær fái tíma

ÍÞRÓTTIR  | 3. nóvember | 22:10 
Tómas Þór Þórðarson, þáttastjórnandi Vallarins, ræddi vandræði Manchester United við einn helsta sérfræðinginn í málefnum enska félagsins, blaðamanninn Andy Mitten, í síðasta þætti.

Tómas Þór Þórðarson, þáttastjórnandi Vallarins, ræddi vandræði Manchester United við einn helsta sérfræðinginn í málefnum enska félagsins, blaðamanninn Andy Mitten, í síðasta þætti.

Mitten hefur verið ritstjóri tímaritsins United We Stand sem fjallar um allt sem viðkemur United og er einnig fastur penni hjá The Athletic í dag. Tómas spurði Mitten út í stöðu Ole Gunnars Solskjær sem er með United í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átján stigum á eftir toppliði Liverpool. Mitten þekkir þessi mál vel en hann fékk að taka viðtal við Ed Woodward í síðasta mánuði, manninn sem öllu ræður um framtíð Solskjærs:

„Ég hygg að hann fái meiri tíma. Ég horfði í augu mannsins sem ber ábyrgð á þessum ákvörðunum og spurði hann út í þetta, en auðvitað verður hann að sýna árangur líka. Ég held að hann muni fá svigrúm. Ef við gefum okkur að United endi í 7.-8. sæti þá myndi hann halda starfinu, en þetta snýst ekki bara um stöðu í deildinni, fótboltinn þarf að verða betri. United hefur verið frekar óspennandi það sem af er þessu tímabili. Þeir hafa ekki skorað nógu mörg mörk. Það hafa verið meiðsli en stuðningsmenn verða að sjá að liðið sé að bæta sig. Þeir vita að það mun taka tíma með unga leikmenn,“ sagði Mitten meðal annars.

Mitten segir að Solskjær beri að hrósa fyrir að hafa fengið þrjá góða leikmenn til United í sumar, og að horft sé til þess að fá þrjá leikmenn til viðbótar. Hins vegar sé ólíklegt að hægt sé að fá þá leikmenn sem félagið helst vilji strax í janúar. United þurfi hins vegar framherja strax:

„Það virðist vanta mikið í sóknarlínuna og þeir gætu þurft að kaupa sóknarmann, sem er í andstöðu við það sem þeir hafa verið að segja, en tímabilið má ekki halda svona áfram. Ég er alveg sáttur ef liðið er að taka tvö skref áfram en eitt aftur á bak, en United á ekki að vera nálægt fallbaráttu,“ sagði Mitten.

Hann ræddi líka um Woodward og hans ábyrgð á gengi United: „Hann telur Ole Gunnar rétta manninn. Ég held að láti hann Ole Gunnar fara muni hann fá umtalsvert meiri gagnrýni en þegar hann lét David Moyes, Louis van Gaal og José Mourinho fara. Pressan er því líka á honum, að meira leyti en áður.“

Viðtalið við Mitten má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.

Loading