Be blæs til sóknar

mbl.is

Mörgum þótti það óðs manns æði þegar fyrrverandi frammámaður Apple lagði mikið fé í að smíða nýtt stýrikerfi sem yrði fjölþráða fjölvinnslukerfi með minnisvernd. Fyrirtækið sem hann stofnaði heitir Be og stýrikerfi BeOS. Síðan hefur mikið gerst í tölvuheiminum, þar á meðal Netbyltingin, og BeOS hefur einnig tekið stórstígum breytingum eins og sjá mátti á kynningu fyrirtækisins á CeBIT.

Á bás BeOS á CeBIT var fyrir að hitta Jean Calmon, varaforseta Be, sem hafði í ýmsu að snúast við að veita sjónvarps- og blaðaviðtöl á milli þess sem hann dró gesti og gangandi inn á básinn til að kynna fyrir þeim að sem þar fór fram. Calmon var meðal annars að kynna sérstaka gerð af BeOS sem sniðin er að einföldum tækjum sem hægt er að nota til að tengjast Netinu, til að mynda borðsímum með skjá fyrir hreyfimyndaflutning eða Nettengingu, tölvum sem eru ekki nema skjár með penna fyrir einfalda textainnritun, en þær eru notaðar við móðurstöðvar með útvarpssendi og bjóða því upp á þráðlaust Netsamband svo dæmi séu tekin.

Aðal Be stýrikerfisins er hversu vel það streymir hreyfimyndum og Calmon sýndi það meðal annars á ræfilslegri Celeron-tövu sem keyrði BeOS og gat sýnt þrjár hreyfimyndir í einu, sótt tölvupóst, vafrað um netið án þess að hiksta.

Be hefur gengið illa að staðsetja stýrikerfið á markaði þrátt fyrir heiðarlega tilraun til að selja það sem sérstakt margmiðlunar- og myndvinnslustýrikerfi. Þar skiptir vitanlega mestu að lítið hefur verið um veigamikinn hugbúnað fyrir kerfið, en Calmon gerir því skóna að það muni breytast í ljósi þess að næsta útgafa Be, 5.0, verður ókeypis. Hann segir að áhugi á því sé talsvert meiri en Be-menn hafi búist við og þegar hafi um 30.000 manns skráð sig á póstlista um að fá að vita þegar hugbúnaðurinn verður tilbúinn í mars næstkomandi. Að hans sögn má reikna með því að hundruð þúsunda muni sækja sér stýrikerfið og því geti ekki farið nema svo að forriturum sem fást við BeOS eigi eftir að fjölga umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert