Vefþjónustufyrirtæki bannað að tengja beint í fréttir á vefsíðum dagblaða

Dómstóll í Kaupmannahöfn bannaði í dag dönsku netþjónustufyrirtæki að birta á vefsíðu sinni tengla beint í fréttir á vefsíðum danskra dagblaða. Fyrirtækið Newsbooster.com fjarlægði þegar í stað 20 tengla í vefsíður danskra blaða sem eiga aðild að samtökum danskra blaðaútgefenda en samtökin stóðu að málshöfðuninni.

Anders Lautrup, yfirmaður Newsbooster.com sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn, sagði úrskurðinn vera sér mikið áfall. Þá sagðist hann gera ráð fyrir að málið hefði áhrif á netleitarvélar frá öllum heimshornum. Newsbooster.com tengir notandann við ákveðnar vefsíður en ekki á heimasíður blaðanna. Samtök blaðaútgefanda kröfðust þess að fyrirtækið greiddi blöðunum fyrir tengingarnar ellegar fjarlægði þær. Á vef Newsbooster.com er að finna tengla í um 4.480 fréttavefsíður um heim allan. Lautrup segir að hvorki hósti né stuna hafi heyrst frá erlendu dagblöðunum og fréttastofunum. Þá sagði hann að úrskurðinum yrði áfrýjað. Málið er ekki einstakt því víða um heim eru málaferli vegna svonefndra djúptengla (e. deep-linking). Dómstóllinn í Kaupmannahöfn úrskurðaði að Newsbooster.com væri í beinni samkeppni við dönsku dagblöðin og að djúptenglar rýrðu gildi vefsíðna dagblaðanna í augum auglýsenda. Mótrök Newsbooster.com voru þau að fyrirtækið væri ekki að stela upplýsingum heldur að gera fólki auðveldara að nálgast þær. Newsbooster.com
mbl.is