Þráðlaust net á ströndinni í Brighton

Hópur dyggra netnotenda hefur sett upp þráðlaust net á ströndinni í Brighton í Englandi, sem gerir tölvunotendum mögulegt að vafra eða senda tölvupóst á sama tíma og þeir njóta sólarinnar. Þjónustan, sem nefnist PiertoPier, er án endurgjalds fyrir þá sem búa yfir réttum búnaði, en uppsetning þjónustunnar er framkvæmd í sjálfboðavinnu.

Þá reiða aðstandendur sig á fjárframlög til þess að halda þráðlausa netinu í notkun, að sögn BBC. "Við búum í Brighton og viljum vinna á ströndinni," segir Alex Studd, einn þeirra sem styður við bakið á verkefninu, í samtali við BBC.

Undirbúningur verkefnisins hófst fyrir fimm mánuðum en prófanir hófust í júli. Stefnt er að því að þjónustan verði komin í fulla notkun í næsta mánuði. Þá kemur fram að þráðlausu neti vaxi ásmegin í Evrópu og bent er á að rúmlega eitt þúsund staðir sem búa yfir slíkri tækni séu til staðar í álfunni.

mbl.is