Nýtt sólgos gæti valdið umtalsverðum fjarskiptatruflunum

Mynd sem sýnir sólgosið í gær.
Mynd sem sýnir sólgosið í gær. AP

Nýtt sólgos hefur sent ský af hlöðnum ögnum í átt til jarðar og vísindamenn segja að skýið geti haft umtalsverðar truflanir í för með sér á fjarskiptum. „Það stefnir beint í áttina til okkar eins og flutningalest," segir John Kohl, stjarneðlisfræðingur hjá Harvard-Smithsonian stjarneðlisfræðistöðinni í Cambridge í Massachusetts, í dag.

Japanska geimvísindastofnunin í Tókýó sagði, að Kodama fjarskiptahnötturinn hefði bilað vegna áhrifa frá sólgosinu. Verður reynt að virkja hnöttinn á ný þegar sólgosinu linnir.

Sólgosið er ekki hættulegt mönnum, en það getur haft veruleg áhrif á gervihnattafjarskipti, m.a. þau sem slökkviliðsmenn og björgunarsveitir, sem berjast nú við skógarelda í Kalíforníu, notast við. Svipuð sólgos hafa á undanförnum árum truflað sjónvarpssendingar, GPS-staðsetningarkerfi og jafnvel raforkuflutninga um raflínur.

Í síðustu viku rakst agnaský af völdum sólgoss á jörðina, en Kohl segir að það hafi valdið lítilli truflun miðað við það sem nýi segulstormurinn muni valda. Sólsprengingin, sem vart varð við í gær, er hins vegar sú stærsta sem vísindamenn hafa orðið vitni að í 30 ár og myndaði hún rykagnaský, sem er 13 sinnum stærra en jörðin og þeytist gegnum sólkerfið með nærri 2 milljóna km hraða á klukkustund.

Segulstormurinn sem skýið veldur gæti orðið meðal þeirra öflugustu sem um getur og varað í sólarhring. Talið er að hann muni hafa áhrif á fjarskiptahnetti og hátíðnisendingar.

Myndir af sólgosinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert