Vísindamenn segja ástina blinda

Verkið Móðurást eftir Nínu Tryggvadóttur.
Verkið Móðurást eftir Nínu Tryggvadóttur. mbl.is/Jim Smart

Vísindamenn hafa sýnt að sannleikskorn er í hinni gömlu speki að ástin sé blind. Þeir hafa komist að því að tilfinningar er rekja má til ástar, valda því að þær stöðvar heilans sem ella sjá um gagnrýna hugsun, verða óvirkar. Svo virðist vera að þegar fólk tengist annarri manneskju nánum tilfinningaböndum, ákveði heili þess að ekki sé þörf á að meta eiginleika og persónuleika viðkomandi.

Rannsóknin, sem gerð var í Unversity College í London birtust í tímaritinu NeuroImage. Vísindamenn komust að því að rómantísk ást og móðurást höfðu sömu áhrif á starfsemi heilans. Ástin bælir niður taugastarfsemi í heilanum sem tengist gagnrýnu mati á félagslegum eiginleikum annars fólks og hugsanlegum neikvæðum tilfinningum í garð þess.

Teymi vísindamanna í háskólanum rannsakaði heila 20 ungra mæðra meðan þær horfðu á myndir af afkvæmum sínum, börnum sem þær þekktu og fullorðnum vinum sínum. Teymið komst að því að mynstur heilastarfsemi kvennanna var mjög svipað og hjá fólki sem gekkst undir svipaða skoðun í tengslum við rannsókn á rómantískri ást.

Báðar rannsóknirnar leiddu í ljós aukna starfsemi í þeim stöðvum í heilanum þar sem „sælutilfinningar“ eru taldar eiga upptök sín. Þegar þessi svæði eru örvuð, til að mynda með mat og drykk, mynda þau ánægjutilfinningar hjá fólki.

Meira kom hins vegar á óvart að báðir rannsóknirnar leiddu í ljós minni starfsemi í þeim heilastöðvum, þar sem neikvæðar tilfinningar verða til. Svipaðar niðurstöður hafa komið fram í rannsóknum á dýrum. Andreas Bartels, hópstjóri teymis vísindamannanna, segir mikilvægt að heilinn taki rómantískri ást og móðurást með jákvæðum hætti, enda séu slíkar tilfinningar viðhaldi mannkyns nauðsynlegar.

„Rannsóknir okkar sýna að mannleg tengsl koma af stað ákveðnu ferli. Heilastöðvar, þar sem gagnrýnin hugsun fer fram og neikvæðar tilfinningar eiga upptök sín, verða óvirkar, en einstaklingar tengjast fyrir tilstilli stöðva sem valda sælutilfinningum,“ sagði Bartels meðal annars.

Einn munur kom þó fram í viðbrögðum heilans við rómantískri ást og móðurást. Einungis rómantísk ást olli aukinni virkni í undirstúku heilans, sem stýrir tilfinningum er valda kynferðislegri örvun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert