Svefnleysi eykur matarlystina

AP

Ný rannsókn Háskólans í Chicago sýnir, að tengsl eru á milli svefnleysis og hættunnar á offitu, þar sem matarlystin eykst ef líkaminn fær ekki nægan svefn. Áður höfðu rannsóknir sýnt fram á þetta samband, en þessi rannsókn er sú fyrsta sem sýnir fram á að svefn stýri framleiðslu líkamans á hormónunum leptín, sem segir líkamanum að hann þurfi ekki meiri mat, og ghrelín, sem kallar fram svengd.

„Þetta er stóra uppgötvunin, að við fundum hvernig svefnleysi hefur áhrif á matarlystina. Breytingin á svengd fylgir breytingunum á hormónunum,“ segir stjórnandi rannsóknarinnar, Eve Van Cauter, prófessor í læknisfræði við Háskólann í Chicago.

Van Cauter og félagar mældu magn hormónanna í 12 heilbrigðum karlmönnum á þrítugsaldri. Þá mældu þau magnið eftir tvær nætur þar sem þeir höfðu verið fjóra tíma í rúminu og sofið að meðaltali þrjá tíma og 53 mínútur og aftur eftir tvær nætur þar sem þeir höfðu verið tíu tíma í rúminu og sofið að meðaltali í níu tíma og átta mínútur.

Að þessu loknu voru karlmennirnir látnir svara spurningalista um matarlyst og löngun í hina og þessa fæðu.

Þegar þeir sváfu aðeins fjóra tíma á nóttu minnkaði magn leptíns um 18% og magn ghrelíns jókst um 28%. Svengd þeirra, samkvæmt svörunum við spurningunum, jókst um 24% og þá langaði í mat með miklum hitaeiningum og kolvetnum, eins og sælgæti, smákökur og kökur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert