Hátíðahöld hófust í Þýskalandi í dag í tilefni af því að öld er liðin frá því að Albert Einstein setti fram afstæðiskenningu sína, og hálf öld frá því að hann lést. Einstein fæddist í Þýskalandi, en bækur hans voru brenndar á valdatíma nasista í landinu. Er árið í ár tileinkað honum.
Á „Ári Einsteins“ verða farnar skoðunarferðir, haldin vísindaráðstefna og mikil sýning tileinkuð Einstein, en kenningar hans um rúm, tíma og afstæði gjörbyltu vísindunum og gerðu hann sjálfan um leið heimsfrægan.
Gerhard Schröder kanslari setti hátíðahöldin í kvöld á þýska þjóðminjasafninu í Berlín og hvatti landa sína og vísindamenn til að ýta undir frumkvæði og pólitískar umræður, rétt eins og Einstein hefði sjálfur gert.
Einstein var gyðingur, fæddur í Ulm í Þýskalandi 1879. Mánuði áður en Adolf Hitler komst til valda 1933 flúði Einstein land, og átti aldrei afturkvæmt. Hann var alla tíð harður gagnrýnandi einræðisstjórnar Hitlers. Í bréfi til vinar síns 1936 skrifaði Einstein: „Það eina sem virðist vera jákvætt er að Hitler viti svo vel hvað hann er valdamikill að hann muni haga sér svo heimskulega að hann fái heiminn upp á móti sér.“