Ofbeldi í sjónvarpi og í tölvuleikjum hættulegt eins og eitur

Ofbeldi í sjónvarpi, á myndbandi og í tölvuleikjum hefur mikil skammtímaáhrif á ung börn. Það eykur hættuna á ofbeldisfullri hegðun og veldur þeim ómeðvituðum ótta. Er þetta niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar í Bretlandi en frá henni segir í læknatímaritinu The Lancet, sem út kemur á morgun.

"Vegna alls úrvalsins, sem nú stendur heimilunum til boða, sjá börnin oft ofbeldisfullt efni, sem ekki passar við aldur þeirra og þroska. Foreldrar og aðrir umsjónarmenn barna ættu því að sýna sömu gát gagnvart þessu og gert er með lyf og eiturefni. Kæruleysi hvað þetta varðar, ofbeldi og kynlífssenur, er í raun ekkert annað en ill meðferð á börnum," segir í greininni en þá er fyrst og fremst átt við ung börn en síður við unglinga.

Höfundar greinarinnar, sálfræðingarnir Kevin Browne og Catherine Hamilton-
Giachritsis við háskólann í Birmingham, tóku saman niðurstöður sex bandarískra rannsókna, sem gerðar hafa verið á áhrifum ofbeldis í fjölmiðlum á börn og hegðun þeirra. Var niðurstaða þeirra eins og fyrr segir sú, að ofbeldisfullt myndefni hefði greinileg "skammtímaáhrif". Veldur það tilfinningaólgu hjá börnunum og eykur líkur á hegðunarvandamálum.

Sálfræðingarnir segja, að vissulega séu þessi mál mjög flókin og benda á, að ástandið innan fjölskyldu barnanna og í nánasta umhverfi geti ráðið miklu. Sé ástandið slæmt, eykur það áhrifin, en sé það gott, dregur það úr þeim. Eftir sem áður er alveg ljóst, segja sálfræðingarnir, að ofbeldisefni hefur einhver áhrif á öll börn og unglinga og stundum í langan tíma.

París. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert