Engin tengsl á milli heilastærðar og vitsmuna

Oft er vit í vænum kolli, segir íslenskt máltæki, en ef marka má niðurstöður bandarískra vísindamanna er lítið vit í þessu máltæki. Engin tengsl eru á milli stærðar heilans og vitsmuna, og þótt heili nútímamanna sé þrefalt stærri en heilinn í forfeðrum hans var bendir sagan til þess að vitsmunalegir yfirburðir okkar hafi ekkert með það að gera að heilinn hefur stækkað.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

William Calvin, prófessor við Washington-háskóla, greindi frá þessum niðurstöðum sínum á ársþingi bandarísku vísindaframfarasamtakanna (AAAS). Heilinn í frummanninum hafi stækkað á tveim tilteknum tímabilum í sögunni, en á þessum sömu tímabilum hafi ekki orðið neinar framfarir í smíði á tækjum og tólum.

„Vitsmunir, að minnsta kosti hvað varðar tækjasmíð, jukust ekki þrátt fyrir að heilinn stækkaði til muna,“ sagði Calvin. Hann útilokar þó ekki að stækkun heilans kunni að hafa haft áhrif á öðrum sviðum, eins og til dæmis að auðvelda tegundinni að komast af með því að gera mannskepnuna að hæfari kastara.

„Á veiðum varð fyrsta kastið að hæfa í mark, annars hljóp kvöldmaturinn í burtu,“ sagði Calvin.

mbl.is