Ósonlagið yfir Íslandi hefur þynnst undanfarnar vikur samkvæmt mælingum NASA

Glitský sem sást á jóladag.
Glitský sem sást á jóladag. mbl.is/RAX

Samkvæmt ósonlagsmælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA, hefur ósonlagið yfir Íslandi og hafinu í kring þynnst verulega undanfarnar vikur, en slík þynning er jafnan tímabundin og getur staðið í 2-10 daga í senn. Samkvæmt mælingum NASA er nú um verulega ósonþynningu að ræða, segir Heiðrún Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Umhverfisstofnun.

Hún segist því vera undrandi á þeirri fullyrðingu sænska vísindamannsins Donal Murtagh að hættan á víðtækri ósoneyðingu yfir norðurhveli hafi verið ofmetin. Ennfremur bendir Heiðrún á, að óvenju mikið hafi sést af glitskýjum yfir öllu Íslandi í vetur, og þau séu beinlínis til marks um að ósonþynning eigi sér stað.

Þykkt ósonlagsins er mæld í svonefndum Dobson-einingum á kvarða frá 500 til 100, og á myndum frá NASA má sjá að undanfarið hefur þykkt lagsins yfir Íslandi, suðurhluta Grænlands, Bretlandseyjum norðanverðum og Skandinavíu sunnanverðri verið á bilinu 300-225 einingar.

Heiðrún segir, að þegar lagið mælist um eða undir 275 einingum sé um verulega ósoneyðingu að ræða. Hún tekur fram að þessi eyðing, eins og öll ósoneyðing, sé tímabundin, en á meðan hún vari sé ráðlegt fyrir þá sem eru mikið útivið, einkum jöklafara, skíðafólk og aðra á snæviþöktum svæðum, að nota sólgleraugu og sólarvörn. Þetta eigi einnig við þótt ekki sé heiðskírt verður því að útfjólubláir geislar frá sólinni, sem ósonlagið veiti vernd fyrir, eigi greiða leið í gegnum skýjahulu.

Ósonlagsmælingar NASA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert