Kynsjúkdómur, sem áður var afar sjaldgæfur, virðist vera að breiðast út meðal samkynhneigðra evrópskra karlmanna, að því er kemur fram í bresku tímariti sem fjallar um kynsjúkdóma. Sjúkdómnum veldur afbrigði af klamydíubakteríunni.
Sjúkdómurinn, sem nefnist Lymphogranuloma venereum (LGV), var áður skilgreindur sem sjaldgæfur sjúkdómur í fátækum löndum en árið 2003 varð hans vart í Rotterdam þegar um 100 samkynhneigðir menn smituðust, að því er kemur fram í aprílhefti tímaritsins Sexually Transmitted Infections.. Segir tímaritið, að sjúkdómurinn sé nú verulegt vandamál.
LVG hefur nú orðið vart í Antverpen í Belgíu, Hamborg í Þýskalandi og í Svíþjóð og í janúar á þessu ári voru fyrstu tilfellin skráð í Bretlandi, aðallega á heilsugæslustöðvum í Lundúnum. Þá hafa tilfelli komið upp í New York, San Francisco og Atlanta í Bandaríkjunum.
Alls hafa 34 tilfelli verið skráð af LVG í Bretlandi og eru sjúklingarnir í öllum tilfellum samkynhneigðir karlmenn. 17 þeirra eru einnig HIV smitaðir og 4 eru með lifrarbólgu C. Segir tímaritið, að líklega hafi sjúkdómurinn verið viðvarandi í Bretlandi í einhvern tíma en ekki verið greindur fyrr en nú.
Talið er að LGV smitist með endaþarmsmökum og kynlífsleikföngum. Einkennin eru blæðandi sár í endaþarmi, magakvalir og stundum hiti. Venjulega er hægt að lækna sjúkdóminn með sýklalyfjum en ef ekki er brugðist við getur sjúkdómurinn valdið krónískri ígerð og ýmsum öðrum kvillum.