Síminn býður upp á bíómyndir heim í stofu

Viðskiptavinir ADSL-þjónustu Símans munu í haust geta valið úr hundruðum kvikmynda og þátta til að kaupa heima í stofu þegar Síminn hleypir af stokkunum myndbandaleigu í sjónvarpi.

Áhorfendur munu eiga ákveðna inneign sem þeir geta notað til að kaupa sér efni og klárist inneignin geta þeir bætt við hana. Áhorfendur kaupa þó efnið ekki til eignar heldur er um tímabundinn aðgang að ræða og fá þeir sendan reikning fyrir notkun mánaðarlega.

Þjónustan verður hluti af sjónvarpsútsendingum Símans í gegnum ADSL, sem hófust í nóvember í fyrra í tíu bæjarfélögum úti á landi og hefjast á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum, að sögn Þórs Jes Þórissonar, framkvæmdastjóra hjá Símanum. Til þess að ná útsendingunum og geta keypt sér kvikmynd eða sjónvarpsþátt þarf mótald og afruglara, en hann geta allir viðskiptavinir ADSL-þjónustu Símans fengið sér að kostnaðarlausu. Stefnt er að því að fjölga sjónvarpsrásunum upp í 60 fljótlega þannig að þær verði jafnmargar og á breiðbandinu í dag.

Svipað verð og á myndbandaleigum

Þá verður sérstök stöð, Enski boltinn, einnig aðgengileg í gegnum sjónvarpsútsendingar Símans, en þar verða beinar útsendingar frá leikjum í ensku knattspyrnunni á fjórum rásum. Greitt verður sérstaklega fyrir knattspyrnurásina.

Verð á kvikmyndum og þáttum sem áhorfendur geta valið úr hefur ekki endanlega verið ákveðið en Þór reiknar með að það verði svipað og á myndbandaleigum. Stefnt er að því að nýta möguleika gagnvirks sjónvarps enn frekar og segir Þór m.a. horft til þátttöku áhorfenda heima í stofu, t.d í spurningaleikjum eða raunveruleikaþáttum.

Með tilkomu sjónvarpsútsendinganna nýtir Síminn nú símalínur undir talsíma, net og sjónvarpsútsendingar og segir Þór stefnt að því að auka samþættingu milli þessara þriggja þátta. Þannig megi t.d. hugsa sér að hægt verði að senda textaskilaboð í sjónvarpinu til vina og félaga sem eru að horfa á sama sjónvarpsefni, fá upplýsingar um númer þess sem hringir í talsímann á sjónvarpsskjánum og í framtíðinni koma upp svokölluðum "vídeósíma", þar sem hægt verður að sjá þann sem talað er við á meðan símtalið stendur yfir.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »