Simpansar sýna lítinn náungakærleik

Simpansi í búri.
Simpansi í búri. AP

Ný rannsókn við Kaliforníuháskóla í Bandaríkjunum (UCLA) virðist benda til þess að simpansar, sem fangnir hafa verið af mönnum, aðstoði ekki hvor annan. Hjálpsemi er talin til eiginleika manna en virðist ekki rík í mannöpum. Simpansar virðast þó búa yfir ýmsum þeim sömu eiginleikum og menn, beita til dæmis áhöldum og tjá sig jafnvel með einhvers konar tungumáli.

Aðrir rannsóknarmenn hafa þó bent á að simpansar sem lokaðir eru inni í búrum kunni að vera síður félagslyndir en þeir sem eru frjálsir úti í náttúrunni. Rannsóknarhópur í UCLA gerði tilraun á 29 simpönsunum en hún var þannig að einn simpansi gat valið milli þess annars vegar að fá mat eingöngu fyrir sjálfan sig og hins vegar fyrir sjálfan sig og simpansann í næsta búri.

Niðurstöður urðu þær að simpansarnir völdu engu frekar seinni kostinn og virtust ekki hafa áhuga á því að vinna það góðverk að útvega náunga sínum mat. Simpansarnir höfðu þó búið saman innilokaðir í fimmtán ár og voru því vel kunnugir hver öðrum. Þykir þetta nokkuð merkileg niðurstaða vegna þess að það er þekkt fyrirbæri meðal villtra simpansa að þeir deili mat hver með öðrum.

Telja rannsakendur ástæður þessa geta verið margvíslegar, meðal annarra þær að innilokun sé það óeðlileg dýrunum að hún breyti eðlislægri hegðun þeirra. Segir frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert