Ný leitarvél, Embla, opnuð á netinu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, opnar nýja leitarvefinn í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, opnar nýja leitarvefinn í dag. mbl.is/Sverrir

Embla, ný leitarvél á netinu sem skilur íslensku, var tekin í notkun í dag. Er vélin vistuð á mbl.is og aðgengileg þaðan en um er að ræða samstarfsverkefni mbl.is sem leggur til netumhverfi, Spurl ehf., sem leggur til leitarvélina, og Orðabókar Háskóla Íslands en öll málfræðivinna á uppruna sinn þar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, opnaði vefinn formlega í Þjóðarbókhlöðunni og sagði hún við það tækifæri að henni þætti nafnið skemmtilegt og sjálf sæi hún fyrir sér að hún ætti eftir að embla mjög mikið á vefnum því mikilvægt væri að hægt sé að nálgast netheimana á forsendum íslenskunnar.

Fleiri niðurstöður
Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Spurl ehf., segir Emblu virka þannig að þegar notandi slær inn orð þá athugar Embla hvort hún þekki það og ef svo er leitar hún að öllum orðmyndum orðsins, þ.e. beygingum orðsins í öllum föllum bæði í eintölu og fleirtölu. Gefur Embla því oft nokkuð fleiri niðurstöður en aðrar leitarvélar. Segir Hjálmar Emblu fyrsta skrefið í þá átt að gera leitarvélar hæfar í að leita á íslensku. Segir hann flest alla leitartækni hingað til eiga uppruna sinn á enskumælandi svæðum og vegna þess hve enska er einfalt tungumál henti þær leitarvélar ekki alltaf íslenskunni og mörgum öðrum tungumálum sem hafi margar beygingarmyndir. Því væri hægt að taka þessa hugmyndafræði upp víðar í heiminum en hann viti ekki til þess að það hafi verið gert á þennan hátt áður.

Leitað í átta milljónum vefsíðna
Embla leitar á íslenskum vefsvæðum sem nú er í kringum átta milljónir síðna ásamt því að leita samhliða í Gagnasafni og Myndsafni Morgunblaðsins. Þá er hægt að leita í öllum fréttum mbl.is. Í Gagnasafni Morgunblaðsins eru nú 900.000 fréttir og greinar frá árinu 1987 til dagsins í dag, 300.000 fréttir sem skrifaðar hafa verið á mbl.is eingöngu frá upphafi árs 1998 og í Myndsafni eru rúmlega 104.000 myndir. Þá bendir Embla á innsláttarvillur og boðið er upp á fjölskylduvæna leit þar sem leitarvélin reynir að sía frá vefsíður sem ekki eru ætlaðar öllum aldurhópum.

Að sögn Kristínar Bjarnadóttur, verkefnastjóra hjá Orðabók Háskólans, byggir leitarvélin á verkefninu Beygingarlýsing íslensks nútímamáls sem unnið var af Orðabók Háskólans fyrir styrk úr Tungutæknisjóði sem menntamálaráðuneytið setti á laggirnar 1999. Verkefnið er vistað á síðu Orðabókar Háskólans og þar getur almenningur flett upp 176.000 orðum sem gefa allt upp í 4,8 milljónir beygingarmynda. Eru orðmyndirnar notaðar til að búa til leitarstrengi sem leita að hverju orði sem flett er upp á Emblu. Ef Embla þekkir ekki orð sem slegið er inn sendir hún upplýsingar til baka til Orðabókar Háskólans og þá er hægt að bæta því orði við.

Auglýsingar tengdar leitarorðum
Að sögn Ingvars Hjálmarssonar, netstjóra mbl.is, gefst auglýsendum nú tækifæri á að velja orð, eitt eða fleiri og skrá inn auglýsingu sem tengist orðunum. Í hvert sinn sem leitað er með völdu orði birtist auglýsing frá viðkomandi í hægri dálki Emblu. Val orða er án greiðslu en fjöldi valinna birtinga á auglýsingu ræður verði hennar. Notendur og/eða auglýsendur geta einnig skoðað vinsælustu leitarorðin síðasta sólarhring sér til glöggvunar.

Embla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert