Nýja árinu frestað um eina sekúndu

Árinu 2006 hefur verið frestað, en þó ekki nema um eina sekúndu. Rétt fyrir miðnætti á gamlárskvöld að Greenwich-viðmiðunartíma, sem er sá sami og íslenskur tími, verður klukkum seinkað um eina sekúndu, og henni þannig bætt við árið - svonefndri hlaupasekúndu. Mælingastöð bandaríska flotans greindi frá þessu í dag.

Áramótin verða því einni sekúndu síðar en ella hefði orðið. Bæta þarf hlaupasekúndum við öðru hvoru vegna þess að nýjustu atómklukkur mæla tímann af mikilli nákvæmni, en snúningur jarðar er stundum misjafn. Hægt hefur á snúningnum undanfarið og með hlaupasekúndum er komið í veg fyrir að misræmi skapist með klukkum á jörðinni og jörðinni sjálfri.

Þetta verður í 23. sinn síðan 1972 sem hlaupasekúndu er bætt við, en þá var undirritað alþjóðlegt samkomulag um tímamælingu. Síðast var bætt við hlaupasekúndu fyrir sjö árum.

mbl.is