Fyrstu ljóskurnar bjuggu í hellum

Jessica Simpson.
Jessica Simpson. Reuters
Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar komu ljóshærðar og bláeygar konur fyrst fram í þróunarsögunni undir lok ísaldar í Norður-Evrópu þegar mikil samkeppni ríkti meðal kvenna um hylli karlanna, sem voru mun færri en konurnar vegna þess hve margir dóu í löngum og erfiðum veiðiferðum.

Frá þessu greinir Timesonline nýverið, en niðurstöður rannsóknarinnar og kenningar höfundarins, kanadíska mannfræðingsins Peters Frosts, birtast í vísindaritinu Evolution and Human Behavior.

Frost heldur því fram, að ljósa hárið hafi komið fram í Norður-Evrópu vegna fæðuskorts fyrir tíu til ellefu þúsund árum. Fram að því hafi menn á þessum slóðum haft dökkbrúnt hár og dökk augu líkt og flestir jarðarbúar hafa nú á tímum.

Undir lok ísaldarinnar hafi Norður-Evrópubúar ekki átt aðrar möguleika á fæðuöflun en veiðar úr stórum hjörðum loðfíla, hreindýra, vísunda og hesta. Til að veiða dýrin hafi menn orðið að fara í langar og hættulegar ferðir sem kostað hafi fjölda karlmanna lífið.

Ljóst hár, sem í fyrstu hafi aðeins komið fram sem sjaldgæf stökkbreytingartilfelli, hafi vakið athygli karlanna og því hafi einstaklingum sem báru genin sem valda ljósu hári og bláum augum farið fjölgandi.

Greining á genum Norður-Evrópubúa, sem gerð var við þrjá japanska háskóla, þykir renna stoðum undir kenningu Frosts. Greiningin leiddi í ljós að genastökkbreytingin sem olli því að ljóst hár kom fram hafi orðið fyrir um ellefu þúsund árum.

Framtíð ljóskunnar er þó óráðin, ef marka má rannsókn sem gerð var á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til að ljóskan muni deyja út eftir um 200 ár vegna þess að of fáir einstaklingar beri ljóskugenin. Að öllum líkindum muni síðustu ljóskurnar fæðast í Finnlandi árið 2202.

mbl.is